Fram kom í fréttatilkynningu frá WOW air í morgun að flugfélagið hefði opnað fyrir bókanir á flugferðum til Bandaríkjanna á heimasíðu sinni. Stendur félagið fyrir ferðum til Washington D.C. og Boston. Flugfélagið mun fljúga til Boston sex sinnum í viku allt árið um kring, en áætlunarflugið hefst í lok marsmánaðar.

Fram kemur á vef Túrista að farþegar í Keflavík geti frá og með vorinu valið milli fjögurra ferða á dag til Boston með Icelandair og WOW air. Það sé meira úrval en farþegar á stærstu flugvöllum Evrópu hafi úr að moða, en aðeins er flogið þrisvar á dag til Boston frá París en tvisvar frá Amsterdam, Franfurt og Dublin.

Ferðirnar eru flestar frá Heathrow flugvelli í Bretlandi, sem jafnframt er stærsti flugvöllur Evrópu, eða sex ferðir á dag. Næstur á eftir kemur Keflavíkurflugvöllur með fjórar ferðir.