Einu aðilarnir sem ekki hafa brugðist við ályktunum og ábendingum Samkeppniseftirlitsins á eldsneytismarkaði eru Reykjavíkurborg og ráðherra umhverfis- og auðlindamála. Aðgangshindranir að markaðnum vegna skipulagslaga og framkvæmdar borgarinnar eru enn til staðar en að öðru leyti er hefur aðgangshindrunum verið eitt.

Þetta kemur fram í markaðsgreiningu Samkeppniseftirlitsins á eldsneytismarkaði sem var birt nýlega en unnið hefur verið að henni frá árinu 2013. Það er mat eftirlitsins að ábendingar í frummatsskýrslu hafi verið teknar til greina. Sá fyrirvari er gerður af hálfu eftirlitsins að til skoðunar er hvort skuldbindingar sem fyrirtæki á eldsneytis- og dagvörumörkuðum hafa undirgengist hafi verið framkvæmdar með fullnægjandi hætti.

„Samandregið er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins, vegna þeirra skaðlegu samkeppnisaðstæðna sem eftirlitið taldi að bregðast þyrfti við í áðurnefndri frummatsskýrslu, að íhlutanir Samkeppniseftirlitsins sem og breytingar á markaði hafi leitt til þess að aðgengi að eldsneyti í heildsölu er betra en áður, aðgangur að birgðarými er greiðari, aðgangshindranir á eldsneytismarkaði eru minni, verðsamkeppni fyrir bifreiðaeldsneyti hefur aukist og fákeppniseinkenni markaðarins minnkað. Virðast skaðlegar samkeppnisaðstæður á eldsneytismarkaði vegna samhæfðrar hegðunar, lóðréttar samþættingar og aðgangshindrana því hafa batnað á tíma markaðsrannsóknarinnar og vegna hennar,“ segir í niðurstöðuhluta úttektarinnar.

Skýrsluna má lesa í heild sinni hér .