Nokkrar vendingar urðu síðan í málefnum ÍSP frá því að Viðskiptablaðið kom síðast út. Meðal annars birti Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) yfirlit yfir bókhaldslegan aðskilnað fyrirtækisins. Í því kemur meðal annars fram að af 1.164 milljóna króna tapi ÍSP af alþjónustu árið 2018 má rekja 818 milljónir til erlendra endastöðvasamninga. Það þýðir að tap upp á 346 milljónir varð af innlendri alþjónustustarfsemi, rekstrarlið sem ekki er háður erlendum endastöðvagjöldum og er ekki háður því að PFS blessi verðskrána. Við þetta bætist að „óhefðbundin alþjónustubyrði“ Póstsins á árinu nam 311 milljónum króna. Eftir stendur því óútskýrt 505 milljóna króna tap á alþjónustuhlutanum.

Í ákvörðuninni kemur einnig fram að það sé mat PFS „að ekki sé lengur um [alþjónustu] byrði að ræða [hjá ÍSP] vegna afgreiðslunetsins“. Þrátt fyrir það ákvað stjórnvaldið að veita ÍSP 250 milljónir króna, til bráðabirgða, á næsta ári fyrir að veita alþjónustu á landinu eftir að ný lög um póstþjónustu taka gildi um áramótin. Lögin fela í sér að einkaréttur til dreifingar á bréfum fellur niður og opnast því á samkeppni á virkum markaðssvæðum. Á ÍSP mun hins vegar hvíla skylda til að bjóða upp á sama verð um land allt en sú breyting var gerð á frumvarpi til laganna af umhverfis- og samgöngunefnd þingsins.

Sjá einnig: Íhuguðu að stefna eigandanum vegna samkeppnisbrota

„ÍSP stendur frammi fyrir því um þessar mundir að tekjuflæði fyrirtækisins, sem skýrist af ytri breytingum og viðbrögðum fyrirtækisins við þeim, krefst þess að útreiknað varúðarframlag að upphæð 490 milljónir verði í heild sinni eða að mestu leyti til reiðu svo fljótt sem auðið er. Fyrirtækið hefur að svo stöddu ekki borð fyrir báru til að fjármagna sjálft hreinan kostnað af alþjónustuveitu,“ segir í athugasemdum ÍSP áður en til bráðabirgðaákvörðunar PFS kom.

Fyrir jól birtist einnig yfirferð PFS vegna álagningar ÍSP af sérstöku gjaldi á erlendar sendingar. Þar kemur meðal annars fram að eingöngu tollaðar sendingar bera slík gjöld en þær eru um fjórðungur sendinga. Þá kemur einnig fram að sama gjald er á sendingar frá Bandaríkjunum og öðrum löndum utan Evrópu þrátt fyrir þá staðreynd að Bandaríkin teljist ekki sem þróunarríki hjá Alþjóðapóstsambandinu UPU. Því fást endastöðvagjöld þaðan greidd að fullu ólíkt því sem gildir til að mynda um Kína. Ástæðan fyrir því að aðeins sumar sendingar bera gjöldin en ekki aðrar er sú að of kostnaðarsamt, vegna vinnuaukningar, hefði verið að leggja gjaldið á óskráðar sendingar. Í ákvörðun PFS er vikið að því að óheimilt sé að nýta gjaldið, sem nemur um hálfum milljarði á ársgrundvelli, til að niðurgreiða tap af öðrum sviðum starfseminnar. Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur haft umrædd gjöld til skoðunar.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .