Aðeins þriðjungur breskra kjósenda myndi greiða atkvæði með áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu ef slík kosning færi fram nú. Í frétt Financial Times segir að um 50% myndu greiða atkvæði með því að Bretland gengi úr sambandinu, 33% myndu greiða atkvæði með áframhaldandi veru Bretlands í ESB og 17% voru ekki viss.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, lofaði því í síðasta mánuði að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Bretlands í Evrópusambandinu árið 2017 ef Íhaldsflokkurinn væri þá enn við völd.

Hann sagði samt á sama tíma að hann myndi berjast fyrir því að Bretland yrði áfram í sambandinu, en ef marka má þessa skoðanakönnun verður það honum þrautin þyngri að sannfæra samlanda sína um það. Áður en slík atkvæðagreiðsla fer fram vill hann semja á ný um stöðu Bretlands innan ESB og færa aftur til London völd yfir ákveðnum málefnum sem nú eru á könnu sambandsins. Trúir hann því að takist þetta muni hann geta sannfært Breta um að framtíð þeirra sé betur borgið innan ESB.