Aðeins 36,3% vöruflokka í vísitölu neysluverðs hækkuðu í verði síðastliðið haust. Hlutfallið hefur ekki mælst lægra síðan að minnsta kosti 2007, en lengra ná tölur Seðlabankans ekki.

Greint er frá hlutfalli vöruflokka sem hækka í verði í nýjustu Hagvísum Seðlabankans sem komu út í síðasta mánuði. Síðan 2007 hefur um það bil helmingur vöruflokka hækkað í verði í hverjum mánuði að jafnaði, en tölurnar byggja á þriggja mánaða meðaltölum. Hæst var hlutfallið í upphafi árs 2008, þegar yfir 70% vöruflokka hækkuðu í verði í hverjum mánuði. Hlutfallið fór í 37% sumarið 2010 en hækkaði síðan aftur.

Á tímabilinu frá september til nóvember 2015 hækkuðu 36,3% vöruflokka í verði og 29% vöruflokka hækkuðu um meira en 2,5% á ársgrundvelli. 2,0% verðbólga mældist í desember.