Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 0,59% í dag en viðskipti á hlutabréfamarkaði námu tæplega 1,8 milljarði króna. Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði einnig um 0,06% og stendur því í 1.362,52 stigum, en viðskipti með skuldabréf námu tæplega 2,2 milljörðum króna.

Aðeins þrjú félög hækkuðu í dag. Össur hækkaði mest eða um 4,39% í 189 milljóna veltu og stóðu bréf félagsins því í 464,00 krónum við lok dags. Næst mest hækkuðu bréf Icelandair eða um 0,63% í 222 milljóna króna veltu. Þá hækkuðu bréf Tryggingamiðstöðvarinnar lítillega í óverulegum viðskiptum.

Mest lækkun var á bréfum Fjarskipta, móðurfélags Vodafone, en þau lækkuðu um 2,25% í 83 milljóna króna viðskiptum og stóðu í 65,30 krónum við lokun markaða. Þá lækkuðu bréf Eikar næst mest en í litlum viðskiptum.

Mest voru viðsipti með bréf Marel en þau námu 645 milljónum króna. Marel lækkaði um 1,06% og standa bréf þess í 327,50 krónum.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,6% í dag í 3 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala Gamma hækkaði um 0,1% í 3,5 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði lítillega í 0,9 milljarða króna viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,1% í 2,5 milljarða króna viðskiptum.