*

þriðjudagur, 31. mars 2020
Innlent 17. febrúar 2020 18:02

Aðeins þrjú félög hækkuðu

Níu félög lækkuðu í verði og átta stóðu í stað í viðskiptum dagsins í Kauphöllinni. Veltan nam 1,1 milljarði.

Ritstjórn
Bréf Heimavalla hækkuðu mest í viðskiptum dagsins, um 1,48%. Arnar Gauti Reynisson er framkvæmdastjóri leigufélagsins.
Haraldur Guðjónsson

Viðskipti með hlutabréf á aðalmarkaði Kauphallarinnar námu samtals 1,1 milljarði króna í dag, og úrvalsvísitalan stóð svo til í stað. Af 20 skráðum félögum breyttist gangvirði 12 þeirra, þó ekkert um yfir 2%, og aðeins þrjú þeirra hækkuðu í verði.

Heimavellir voru hástökkvari dagsins með 1,48% hækkun í 45 milljón króna viðskiptum. Skeljungur hækkaði um 0,95% í 279 milljóna viðskiptum, og Arion banki um 0,59%, og eru þar með upptalin þau þrjú félög sem hækkuðu.

VÍS lækkaði mest allra félaga, um 1,50% í 182 milljóna viðskiptum, en næst komu Festi með 1,06% lækkun í 70 milljónum og TM með 0,91% lækkun í 33 milljónum.

Marel var veltumest eins og svo oft áður, með 279 milljón króna viðskipti sem skiluðu félaginu 0,17% lækkun, en ansi mjótt var á munum milli tæknifyrirtækisins og Skeljungs, hvers bréf skiptu hendur fyrir aðeins 200 þúsund krónum minna.