Aðeins þrjú af tólf stærstu sveitarfélögunum hyggjast lækka fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði á næsta ári. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Félags atvinnurekenda en sveitarfélögin þrjú eru Hafnarfjörður um 0,08%, Kópavogur um 0,02% og Akranes um 0,03%.

Í frétt á vef FA segir að talsvert sé um að sveitarfélög greini frá því í tilkynningum um framlagningu frumvarpa að fjárhagsáætlunum fyrir næsta ár að fasteignaskattar lækki til að mæta miklum hækkunum á fasteignamati. Í flestum tilvikum eigi það þó eingöngu við um fasteignagjöld á íbúðarhúsnæði.

Félag atvinnurekenda skrifaði öllum sveitarfélögum þar sem aðildarfyrirtæki félagsins eru staðsett, bréf í haust, og hvatti þau til að mæta gífurlegum hækkunum fasteignamats með lækkun álagningarhlutfalls fasteignagjalda. Í bréfinu var farið yfir hvernig tekjur sveitarfélaga af fasteignagjöldum hafa hækkað undanfarin ár vegna fasteignamats en tekjur Reykjavíkur hækkuðu um 1,8 milljarð á árunum 2013-2016 svo dæmi sé tekið.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir að viðbrögð sveitarfélaganna séu mikil vonbrigði. Þó fagni félagið boðuðum lækkunum í Kópavogi, Hafnarfirði og Á Akranesi. „FA skorar á sveitarfélögin að gera breytingar við meðferð frumvarpa að fjárhagsáætlunum í sveitarstjórnum og sýna fyrirtækjum sömu sanngirni og eigendum íbúðarhúsnæðis.“

Á myndinni hér að neðan má sjá yfirlit yfir álagningarprósentur fasteignagjalda 2017 og 2018.

Úttekt FA á fasteignagjöldum
Úttekt FA á fasteignagjöldum
© Skjáskot (Skjáskot)