Aðeins tveir þeirra tuttugu lífeyrissjóða sem ekki njóta ábyrgðar launagreiðenda höfðu jákvæða tryggingafræðilega stöðu í lok síðasta árs samkvæmt frétt á vef Fjármálaeftirlitsins en allir þessir sjóðir hafa nú skilað inn skýrslu til eftirlitsins. Þessir tveir sjóðir voru Lífeyrissjóður Búnaðarbanka Íslands og Lífeyrissjóður tannlækna.

Tryggingafræðileg staða mælir getu sjóðanna til þess að standa við áfallnar skuldbindingar sem og framtíðarskuldbindingar þeirra og sé hún neikvæð þá geta sjóðirnir ekki staðið við skuldbindingar sínar að fullu. Fari neikvæð tryggingafræðileg staða niður fyrir 10% þurfa sjóðirnir alla jafna að skerða réttindi sjóðsfélaga og voru tvær sjóðir undir þeim mörkum, Stapi lífeyrissjóður og Lífeyrissjóður bænda, en vegna tímabundinnar undanþágu undan þessari reglu má tryggingafræðileg staða fara niður í 15% áður en skerða þarf réttindi. Því þarf enginn umræddra sjóða að skerða réttindi að svo stöddu.

Fram kemur í frétt FME að tryggingafræðilega staðan hafi batnað frá árinu áður.

Engin þeirra sjóða sem njóta ábyrgðar laungreiðenda hefur jákvæða tryggingafræðilega stöðu en slíkum sjóðum ber samkvæmt lögum ekki að skerða réttindi þótt tryggingafræðileg staða þeirra sé neikvæð.