Af þeim sex félögum sem skipuðu Úrvalsvísitöluna, OMXI6, árið 2011, þá hafa aðeins tvö þeirra hækkað á árinu, Icelandair Group og Marel. Hin fjögur félögin hafa lækkað en mesta lækkunin hefur verið hjá Atlantic Petroleum og BankNordik. Mest hefur veltan verið með bréf Marel.

Þetta kemur fram í samantekt greiningardeildar Arion banka um félögin sem skipa Úrvalsvísitöluna í Kauphöllinni hér á landi.

Sem fyrr segir hefur mesta lækkunin verið hjá færeyska olíuleitarfyrirtækinu Atlantic Petroleum. Gengi bréfa Atlantic Petroleum hefur lækkað um tæp 30% það sem af er ári, en viðskipti með bréf félagsins hafa verið frekar strjál, segir í markaðspunktum greiningardeildar Arion.

Verð hlutabréfa Icelandair Group hafa hækkað um 60% frá ársbyrjun, en velta með bréf félagsins hefur verið að meðaltali um 60 milljónir króna á dag. Þá hefur gengi hlutabréfa í Marel hækkað um rúm 26% á árinu í meðalveltu uppá tæpar 114 milljónir króna á dag.

Þá kemur fram í samantekt greiningardeildarinnar að gengi hlutabréfa Össurar hefur lækkað um tæp 7% frá því í lok mars en þá ákvað Kauphöllin að taka bréf félagsins aftur til viðskipta. Veltan á bréfum Össurar hefur verið mjög takmörkuð og það sama má segja um veltu bréfanna í kauphöllinni í Kaupmannahöfn.

Viðskipti hófust með hlutabréf Haga föstudaginn 16. desember, en Hagar er fyrsta félagið sem hefur verið skráð á aðallista Nasdaq OMX Iceland síðan haustið 2008. Gríðarlegur áhugi var á útboðinu og í lok þess var umframeftirspurnin eftir bréfum í félaginu áttföld. Gengið í útboðinu var 13,5 kr/hlut en gengi bréfanna hækkaði um 18% á fyrsta degi viðskipta í um 530 milljóna króna viðskiptum og stóð í 15,95 kr/hlut við lokun markaðar.

Úrvalsvísitalan er endurskoðuð tvisvar á ári, en við opnun markaða þann 2. janúar n.k. munu Hagar taka sæti færeyska flugfélagsins Atlantic Airways í vísitölunni. Vísitalan verður því skipuð færeysku félögunum Atlantic Petroleum og BankNordik ásamt Högum, Icelandair Group, Marel og Össuri.

Hér fyrir neðan má sjá verðbreytingu á hlutbréfum þeirra félaga sem mynda OMXI6 Úrvalsvísitöluna á árinu, en myndin var birt með samantekt greiningardeildar Arion banka í dag.

Hér má sjá verðbreytingu á hlutbréfum þeirra félaga sem mynda OMXI6 Úrvalsvísitöluna á árinu 2011. Myndin var birt með markaðspunktum greiningardeildar Arion banka þann 27.12.11.
Hér má sjá verðbreytingu á hlutbréfum þeirra félaga sem mynda OMXI6 Úrvalsvísitöluna á árinu 2011. Myndin var birt með markaðspunktum greiningardeildar Arion banka þann 27.12.11.