Aðeins Ryanair og Easy Jet eru betur rekin flugfélög en Icelandair, að mati sérfræðinga flugtímaritsins Aviation sem rýndu í ársreikninga rúmlega sjötíu skráðra flugfélaga. Lagt var mat á greiðslugetu þeirra, kostnaðarstjórnun, tekjustýringu, viðskiptamódel og fleira. Flugfréttasíðan Túristi.is greinir frá.

Aviation Week birti í vikunni niðurstöður athugunar sinnar og flokkaði félögin eftir stærð og landssvæðum. Í Evrópu þykja lággjaldaflugfélögin Easy Jet og Ryanair best rekin. Þar á eftir kemur Icelandair og fékk félagið hæstu einkunn meðal hefðbundinna evrópskra flugfélaga. Í flokki þeirra félaga sem velta allt að tveimur milljónum dala þá er Icelandair í sjöunda sæti á heimsvísu.