Þingmennirnir Magnús Orri Schram og Guðlaugur Þór Þórðarson gagnrýndu Framtakssjóð Íslands nokkuð harðlega fyrir hvernig staðið væri að söluferli á stórum hluta í Icelandic Group í Kastljósþætti kvöldsins. Þeir voru sammála um að aðferðin, þar sem Framtakssjóðurinn hefur skuldbundið sig til að ræða við fjárfestingasjóðinn Triton án þess að fara í opið söluferli, væri til þess fallin að ala á tortryggni og vantrausti á viðskiptalífinu.

Magnús Orri Schram
Magnús Orri Schram
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Magnús Orri sagði að söluferlið væri ekki í samræmi við það sem lagt var upp með þegar Icelandic var enn í eigu Vestia. „Við verðum að gera þá kröfu til þeirra sem fara með þessi fyrirtæki að þeir hafi gagnsæi að leiðarljósi," sagði Magnús og átti við Framtakssjóðinn. Lýsti hann ákveðnum vanda þar sem áhersla væri lögð á að stjórnmálamenn væru ekki að skipta sér af einstökum ákvörðunum innan bankanna. Þess vegna var bankasýslan stofnuð og verklagsreglur samdar. „Svo virðist sem menn skáskjóti sér framhjá þessum verklagsreglum," sagði Magnús og taldi að það þyrfti skýrari reglur um það hvernig fyrirtæki færu úr opinberri eigu í einkaeigu.

Guðlaugur Þór sagði að það væri ekki hægt að leysa allan vanda með að kalla í sífellu eftir strangari reglum. Sagði hann að ríkisstjórnin, og fjármálaráðherra sem bankasýslan heyrði undir, hefði leiðir til að hrinda stefnu sinni í framkvæmd. Sú stefna hefði meðal annars verið gefin út 11. nóvember síðastliðinn þegar skýrt kom fram að Framtakssjóðurinn ætlaði að framfylgja sömu verklagsreglum við sölu fyrirtækja og settar hefðu verið hjá Vesta. Fjármálaráðherra hefði gefið þá yfirlýsingu, forstjóri bankasýslunnar og bankastjóri Landsbankans. Sagði Guðlaugur að samkvæmt ákveðnum reglum gæti fjármálaráðherrann fengið bankasýsluna til að framfylgja stefnunni. Það hefði ekki verið gert þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar þar um.

Báðir voru sammála um að Framtakssjóðurinn þyrfti að skýra mál sitt betur. Magnús Orri sagði að viðskiptanefnd Alþingis hefði ekki lokið umfjöllun um þetta mál.