*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Innlent 1. júní 2020 18:21

Aðfinnslur vegna seins reiknings

Úrskurðarnefnd lögmanna fann að háttsemi lögmanns í kjölfar erfðamáls þar sem hann dró það í fjóra mánuði að senda reikning.

Jóhann Óli Eiðsson
Málið endaði fyrir Landsrétti og var úrskurður kveðinn upp í júní í fyrra.
Haraldur Guðjónsson

Úrskurðarnefnd lögmanna hefur fundið að þeirri háttsemi lögmannsins Magnúsar M. Norðdahl að draga það að senda skjólstæðingi sínum reikning vegna erfðamáls. Öðrum kröfum skjólstæðings hans var hins vegar hafnað. 

Leitað var til lögmannsins í ársbyrjun um gildi erfðaskrár föðurstystur mannsins og maka hennar. Erfðaskráin jók rétt systur mannsins um fram hann. Einkaskiptin gengu ekki og var opinberra skipta krafist. 

Fallist var á opinber skipti í héraði og fyrir Hæstarétti. Voru kæranda málsins fyrir nefndinni dæmdar alls 700 þúsund krónur í málskostnað. Auk þessa fékk Magnús frá honum 1,2 milljónir króna rúmar auk annars eins úr málskostnaðartryggingu hans. 

Ágreiningur varð um gildi erfðaskrárinnar í hinum opinberu skiptum. Fór sá ágreiningur fyrir héraðsdóm og síðan fyrir Landsrétt. Endanlegur úrskurður var kveðinn upp í Landsrétti en þar var hluta af kröfum mannsins vísað frá og öðrum kröfum hafnað. 

Eftir að úrskurður var kveðinn upp í Landsrétti óskaði maðurinn eftir því að lögmaðurinn myndi láta af hagsmunagæslu fyrir hann. Þá óskaði hann eftir því að fá öll gögn málsins send og að reikningur yrði gefinn út. 

Þau samskipti áttu sér stað í byrjun júlí en svar fékkst ekki. Erindið var ítrekað í ágúst og september og sagðist lögmaðurinn þá muna taka saman reikning. Það dróst enn frekar og í október kvartaði hann til úrskurðarnefndarinnar. Í kjölfar þess var reikningur gefinn út að fjárhæð rúmlega milljón krónur með virðisaukaskatti. Ríflega þriðjungsafsláttur var veittur af upphæð reikningsins.

Fyrir nefndinni krafðist maðurinn þess meðal annars að „dómurinn í erfðamálinu verði felldur úr gildi“ og að málið yrði endurupptekið. Þeirri kröfu var skiljanlega hent öfugri út. Ekki var síðan fallist á að reikningur vegna vinnunnar hefði verið úr hófi miðað við umfang málsins. 

Nefndin fann aftur að móti að þeirri háttsemi lögmannsins að hafa ekki svarað erindum mannsins í um fjóra mánuði og með því stuðlað að því að lokauppgjör, sem lögmanninum mátti vera ljóst að varðaði fyrrverandi skjólstæðing hans miklu að ætti sér stað, gæti farið fram. Aðfinnslur voru því látnar duga að þessu sinni.