Neytendasamtökin hafa sent alþingismönnum bréf varðandi frumvarp til fjáraukalaga þar sem lagt er til að sérstakt markaðsátak á erlendum mörkuðum sauðfjárafurða verði veitt 100 milljónum króna. Í bréfinu segir meðal annars að: „Þessi aðför að íslenskum neytendum er ekki í þágu hagsmuna bænda. Hún er í þágu milliliða, bændum gagnslaus og á kostnað neytenda.“

Eins og Ríkisútvarpið hefur áður greint frá þarf að koma 800 til 1.000 tonnum af lambakjöti inn á erlenda markaði til að koma í veg fyrir verðfellingu á kjöti.

„Til að fyrirbyggja misskilning er rétt að taka fram að Matvælalandið Ísland er verkefni sem ríkisstjórnin setti á laggirnar á síðasta ári. Verkefninu er ætlað að treysta orðspor og móta ímynd Íslands sem upprunalands hreinna og heilnæmra matvæla og auka með því móti gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Til verkefnisins er varið 80 milljónum á ári í fimm ár. Eitthundrað milljónirnar, sem nú er lagt til að settar verði í að finna markaði fyrir sauðfjárafurðir, eru ekki hluti af þessu átaki. Hundrað milljónirnar eru beinar niðurgreiðslur til sölu á íslensku kindakjöti til neytenda í útlöndum til að tryggja að verð lækki ekki til íslenskra neytenda.

Ásetningurinn er því einbeittur. Verð á sauðfjárafurðum má ekki lækka til íslenskra neytenda. Þetta er ekki í þágu bænda enda er þegar búið að lækka verð til þeirra. Hér er ríkisvaldið að verja skattpeningum í niðurgreiðslu á sauðfjárafurðum erlendis beinlínis til að halda uppi verði á matvælum á íslenskum neytendamarkaði. Hér er ríkisvaldið að beita aðferðum, sem eru löngu fullreyndar og mistókust með öllu. Útflutningsstyrkir fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir virkuðu ekki á árum áður og munu ekki heldur gera það nú,“ er einnig meðal þess sem kemur fram í bréfinu.

Hægt er að lesa það í heild sinni hér, undir það skrifar Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna:

Ágætu alþingismenn!

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til fjáraukalaga. Í því er lagt til að veitt verði 100 milljónum króna til „Matvælalandsins Íslands til að standa fyrir sérstöku markaðsátaki á erlendum mörkuðum sauðfjárafurða vegna fyrirsjáanlegrar birgðaaukningar.“

Í athugasemdum við frumvarpið segir m.a. á bls. 62: „Mikill taprekstur er á sölu sauðfjárafurða og þrátt fyrir lækkun á verði sláturleyfishafa til bænda fyrir sauðfjárafurðir er frekari aðgerða þörf. Markaðsráð kindakjöts, sem er samstarfsvettvangur bænda og sláturleyfishafa, hefur unnið markvisst að því að finna nýja markaði erlendis, en ljóst er að afsetja þarf um 800 til 1.000 tonn til að koma í veg fyrir uppnám og almenna verðfellingu á kjöti á innlendum markaði seinnipart vetrar og/eða næsta haust.“

Til að fyrirbyggja misskilning er rétt að taka fram að Matvælalandið Ísland er verkefni sem ríkisstjórnin setti á laggirnar á síðasta ári. Verkefninu er ætlað að treysta orðspor og móta ímynd Íslands sem upprunalands hreinna og heilnæmra matvæla og auka með því móti gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Til verkefnisins er varið 80 milljónum á ári í fimm ár. Eitthundrað milljónirnar, sem nú er lagt til að settar verði í að finna markaði fyrir sauðfjárafurðir, eru ekki hluti af þessu átaki. Hundrað milljónirnar eru beinar niðurgreiðslur til sölu á íslensku kindakjöti til neytenda í útlöndum til að tryggja að verð lækki ekki til íslenskra neytenda.

Ásetningurinn er því einbeittur. Verð á sauðfjárafurðum má ekki lækka til íslenskra neytenda. Þetta er ekki í þágu bænda enda er þegar búið að lækka verð til þeirra. Hér er ríkisvaldið að verja skattpeningum í niðurgreiðslu á sauðfjárafurðum erlendis beinlínis til að halda uppi verði á matvælum á íslenskum neytendamarkaði. Hér er ríkisvaldið að beita aðferðum, sem eru löngu fullreyndar og mistókust með öllu. Útflutningsstyrkir fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir virkuðu ekki á árum áður og munu ekki heldur gera það nú.

Þessir nýju útflutningsstyrkir hafa beinverið að verja skattpeningum íslenskra neytenda til að halda uppi matarverði hér á landi heldur veldur sú aðgerð jafnframt hækkun á höfuðstólum húsnæðislána íslenskra heimila. Þessi aðför að íslenskum neytendum er ekki í þágu hagsmuna bænda. Hún er í þágu milliliða, bændum gagnslaus og á kostnað neytenda.

Neytendasamtökin skora á alla þingmenn að taka sér stöðu með íslenskum neytendum og hafna ríkisaðstoð við milliliði í landbúnaði, sem hækkar matvöruverð til neytenda og höfuðstól húsnæðislána en skilar sér ekki til bænda. Sé raunverulegur vilji til að bæta hag sauðfjárbænda eru til leiðir að því markmiði, sem ekki hækka matarreikning heimilanna og höfuðstól húsnæðislána.

Eftir kosningarnar 29. október sl. tóku 32 nýir þingmenn sæti á Alþingi. Neytendasamtökin beina áskorun sinni sérstaklega til nýrra þingmanna og spyrja: Er það ykkar vilji og ásetningur að hefja þingferil ykkar á því að samþykkja beina aðför að íslenskum neytendum og heimilum landsins? Á sama tíma og nauðsynlegt er vegna fjárskorts að forgangsraða í heilbrigðis-, mennta- og tryggingakerfinu er fráleitt að verja skattpeningum almennings til að halda uppi vöruverði í landinu og hækka höfuðstól verðtryggðra lána. Þið berið ábyrgð og ykkur ber skylda til að fylgja eigin sannfæringu í störfum ykkar á Alþingi Íslendinga. Íslenskir neytendur munu fylgjast með ykkur og verkum ykkar.