*

þriðjudagur, 30. nóvember 2021
Innlent 24. júní 2021 19:11

Aðför ASÍ skaði ekki útboðið

Forstjóra Play þykir líklegt að fleiri lífeyrissjóðir fjárfesti í félaginu í yfirstandandi útboði. Hann merkir ekki neikvæð áhrif vegna ASÍ.

Andrea Sigurðardóttir
Birgir Jónsson, forstjóri Play.
Eyþór Árnason

Nýja flugfélagið Play hefur átt stóran dag í dag. Fyrsta áætlunarflug félagsins var farið frá Keflavíkurflugvelli auk þess sem hlutafjárútboð Play hófst. Andvirði útboðsins nemur rúmum fjórum milljörðum króna en í apríl safnaði félagið um sex milljörðum króna í lokuðu útboði þar sem tveir lífeyrissjóðir, Birta og Lífsverk, voru meðal fjárfesta. Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir ekki loku fyrir það skotið að fleiri bætist við nú í almenna útboðinu.

„Við höfum ekkert í hendi með það hvort fleiri lífeyrissjóðir koma inn en ég held að það sé alveg líklegt. Við höfum hitt þá flesta ef ekki alla á kynningarfundum okkar undanfarið en auðvitað veit maður ekki fyrr en útboðið er afstaðið hvernig til tókst. Við höfum þó ekki merkt neitt nema jákvæðar viðtökur. Fólk er að átta sig á því að félagið er að skapa fullt af nýjum störfum og lífeyrissjóðir horfa auðvitað töluvert til samfélagslegra áhrifa. Svo er ferðaþjónustan að vakna úr dvala þannig að fólk sér tækifæri í því," segir Birgir.

Hann segist finna fyrir miklum áhuga erlendis og að það kæmi honum ekki á óvart ef erlendir fjárfestir tækju þátt.

„Við höfum ekki beinlínis verið að markaðssetja útboðið gagnvart erlendum fjárfestum en það kæmi mér ekki á óvart ef þeir tækju þátt. Það hefur verið rosalega mikill áhugi á félaginu í erlendum fjölmiðlum og við höfum verið að fá alls konar fyrirspurnir frá ýmsum aðilum. Þetta er auðvitað mjög alþjóðlegur bransi og áhuginn ytra er það mikill að ég eyði í raun miklu meiri tíma í að tala við erlenda fjölmiðla en íslenska," segir Birgir.

Fyrst og fremst sorglegt

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur hvatt fólk og fjárfesta til að sniðganga Play og meðal annars haldið því fram að grunnlaun félagsins séu þau lægstu sem sést hafi á íslenskum vinnumarkaði, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um eru lægstu grunnlaun Play þó hærri en hjá Icelandair. ASÍ hefur þrátt fyrir ábendingar ekki leiðrétt fullyrðingar sínar og þykir Birgi málið allt hið sorglegasta.

„Mér þykir það fyrst og fremst bara sorglegt að þessi merkilega hreyfing misnoti sitt góða orðspor, virðingu og áhrif sem hún hefur skapað sér í gegnum árin, í svona hagsmunabaráttu og með þessum hætti. Það eina sem maður getur gert er að leggja fram gögn á móti og ég held að það sjái það hver sem vill skoða þetta af skynsemi að það stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi þeirra."

Hann á því ekki von á því að málflutningur ASÍ hafi neikvæð áhrif á útboð Play.

„Ég hef ekki merkt það hingað til að þetta sé að skemma fyrir okkur og á ekki von á að það geri það. Þetta er auðvitað rosalega neikvætt og leiðinlegt mál en í raun er það bara ágætt að hafa með þessu fengið tækifæri til þess að útskýra kjaramálin ofan í kjölinn, þið hjá Viðskiptablaðinu hafið gert það mjög vel og eins förum við ítarlega yfir þau í fjárfestakynningunni. Kynningin hefði sennilega verið öðruvísi ef ASÍ hefði ekki hafið þessa aðför og þá hefði þessi mýta þeirra kannski alltaf umlukið okkur. Með því að hafa lagt þetta fram, svart á hvítu, sjá allir að það er ekkert í þessu hjá þeim."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Birgir Jónsson ASÍ Play