Stærri bílaleigum er hampað á kostnað þeirra smærri með svokölluðu leyfisgjaldi sem þarf að greiða til að fá afslátt á vörugjöldum af bílaleigubifreiðum. Þetta er skoðun bílaleigunnar FairCar sem hefur höfðað mál gegn Fjármála- og efnahagsráðuneytinu vegna lagabreytingar sem tók í gildi þann 1. janúar 2013 og innihélt upptöku leyfisgjaldsins. Málið verður tekið fyrir þann 10. september næstkomandi.

Gjaldið innheimtist þannig að greiddar eru 1.750 þúsund krónur fyrir innflutning á 35 bílum eða minna, 3.750 þúsund krónur fyrir innflutning á 36-249 bílum og 6.750 þúsund krónur fyrir innflutning á 250 bílum eða meira. Það er skoðun Bjarka Hallssonar, sem stofnaði FairCar ásamt bróður sínum Einari, að tilvist leyfisgjaldsins sé ósanngjörn gagnvart smærri bílaleigum og geri þeim erfiðara fyrir í samkeppni, þar sem þær þurfi að borga talsvert meira fyrir hvern bíl til að fá afsláttinn á vörugjöldum.

„Þetta er mikill munur. Nú erum við lítil bílaleiga og flytjum inn um 30 bíla á ári. Þá þurfum við að greiða 58.000 krónur á bíl til þess að njóta þessara ívilnana á meðan stærri bílaleigur eru að kaupa rúmlega 1.000 ökutæki á ári og eru að greiða tæplega 7.000 krónur á hvern bíl. Munurinn er margfaldur,“ segir Bjarki, sem segir að í raun sé um að ræða aðgangshindrun á markaðinn.

Í Viðskiptablaðinu, sem kemur út á morgun, er fjallað nánar um málið. Þar er einnig rætt við Steingrím Birgisson, forstjóra Bílaleigu Akureyrar. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér í fyrramálið. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Icelandair Group er ennþá undirverðlagt
  • Vinnuhópur á vegum ASÍ skoðar innleiðingu styttri vinnuviku
  • Ítarleg úttekt á ákvörðun Seðlabankans um hækkun stýrivaxta
  • Reykjaneshöfn þarf ríkisstyrk til að losna úr skuldafeni
  • Íslenskt eldsneyti ehf stefnir á að framleiða eldsneyti úr þörungum
  • Forstjórar eru með tíföld laun íslenskra launþega að jafnaði
  • Tinna Brá Baldvinsdóttir, eigandi Hríms, ræðir um ævintýrið sem fylgdi því að opna eigin verslun
  • Iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir lögverndun starfsheita varða almannahagsmuni
  • Veiðimenn vilja dýrari byssur
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um frelsi og vinsældir
  • Óðinn fjallar um viðskiptabann Rússa
  • Þá eru í blaðinu pistlar, myndir og margt fleira.