Sigurður Kiernan og Viktor Þórisson hafa stofnað fyrirtækið GTL sem er til húsa að Smiðjuvegi 4 í Kópavogi. Húsnæðið var áður skjalageymsla Arion banka og þar áður Búnaðarbankans. Fyrirtækið býður upp á geymslur fyrir einstaklinga og fyrirtæki og er opið allan sólarhringinn, alla daga vikunnar.

„Þetta er fyrsta geymsluhúsnæðið í Kópavogi og það er raunar mjög miðsvæðið á Smiðjuveginum fyrir allt höfuðborgarsvæðið. Við bjóðum upphitaðar geymslur með jöfnum hita allt árið og loftrýst rými. Við erum með fullkomið öryggiskerfi, myndavélar og vöktun enda húsnæðið hannað með tilliti til þess að verið sé að gæta mikilla verðmæta. Við teljum mikilvægt að geta boðið fyrirtækjum og einstaklingum upp á aðgang að geymslum allan sólarhringinn, alla daga vikunnar. Það hefur ekki verið í boði hingað til,“ segir Sigurður Kiernan og bætir við að hver leigjandi hafi sérstakan aðgangskóða til að komast inn í húsnæðið á öllum tímum sólarhringsins.

Alls eru tæplega 300 geymslur í 2.200 fermetra húsnæði fyrirtækisins. Geymslurnar eru í mismunandi stærður allt frá 4,5 til 20,5 rúmmetra. Hægt er að bóka geymslur á heimasíðu fyrirtækisins . Þar er einnig að finna rýmisreikni sem áætlar rýmisþörf út frá því sem geyma skal.