Formaður Lögmannafélags Íslands (LFMÍ) telur að ýmislegt megi betur fara til að tryggja aðgengi fólks að dómstólum. Þröng skilyrði gjafsóknarnefndar, lágt tímakaup fyrir verjendastörf og dæmdur málskostnaður í einkamálum sé meðal þess sem mætti bæta.

Nýverið birtist álit umboðsmanns Alþingis, en aðdraganda þess má rekja til kvörtunar lögmanns undan þóknun hans fyrir verjendastörf. Sú byggði á viðmiðunarreglum dómstólaráðs frá 2009, en samkvæmt þeim var tímagjald fyrir verjendastörf ákveðið 10 þúsund krónur. Það er talsvert undir hefðbundinni gjaldskrá lögmanna. Síðan þá hefur reglunum verið breytt og gjaldið verið hækkað.

Í máli því sem endaði á borði umboðsmanns hafði lögmaður sent reikninga til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir að nýjar reglur tóku gildi. Vinnan hafði aftur á móti verið innt af hendi í tíð eldri reglna. Taldi lögmaðurinn að hann ætti rétt á að fá greitt samkvæmt nýju reglunum en því hafnaði lögreglan. Málið endaði inni á borði dómsmálaráðuneytisins, sem tók undir röksemdir lögreglunnar.

Í áliti umboðsmanns segir að við tilnefningu lögmannsins sem verjanda hefði hann eignast kröfu á hendur ríkinu. Niðurstaða um að miða við eldri reglur hefði verið íþyngjandi og þurft að byggja á skýrri lagaheimild. Taldi umboðsmaður að það skilyrði hefði ekki verið uppfyllt. Umboðsmaður sendi ráðuneytinu einnig pillu fyrir að hafa ekki kannað nægilega hvort framkvæmd lögreglunnar á þessu sviði hefði verið fullnægjandi eða í samræmi við lög.

Látið reyna á fyrir dómi

Álitið nú bætist við eldri mál sem upp hafa komið. Umræddar viðmiðunarreglur voru til að mynda undir í dómi Landsréttar frá desember 2018 og héldu þar ekki. Í síðasta Lögmannablaði mátti síðan finna niðurstöður úttektar dr. Hersis Sigurgeirssonar um fjárhæðir viðmiðunarreglna um þóknun lögmanna fyrir réttargæslu- og verjendastörf. Var niðurstaða hennar að fjárhæðin væri ríflega fimmtungi lægri en ef miðað væri við almenna verðlagsþróun.

„Ég hef áhyggjur af aðgangi fólks að dómstólum. Það er ekki nóg að mælt sé fyrir um réttindi fólks í stjórnarskrá, settum lögum og mannréttindasáttmálum ef almenningur hefur ekki tækifæri til að neyta þeirra fyrir dómstólum. Hér er á ferð atriði sem við hjá LMFÍ höfum löngum haft til skoðunar og teljum að færa þurfi til betri vegar,“ segir Sigurður Örn Hilmarsson, lögmaður hjá Rétti og formaður LMFÍ.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .