Óhætt er að segja að rekstraraðilar í ferðaþjónustu séu óánægðir með síðasta útspil stjórnvalda um viðbrögð við veirufaraldrinum. Önnur mánaðamótin í röð er þörf á neyðaraðgerðum til að forða því að allt fari í bál og brand.

Sem kunnugt er hefur hrun í ferðaþjónustu hér á landi verið algert vegna ferðabanna sem í gildi eru um jarðarkringluna. Fram hefur komið að farþegar um Keflavíkurflugvöll páskahelgi þessa árs voru 99 talsins samanborið við 84 þúsund árið í fyrra. Sviðsmynd KPMG, sem unnin var að beiðni Ferðamálastofu, gerir ráð fyrir 70% samdrætti í komum til landsins þetta árið og um þriðjungfækkun á því næsta samanborið við 2019. Samdrátturinn þýðir að tekjulindir fyrirtækja gufuðu upp á einni nóttu en ríflega fimmtungur af innlendri kortaveltu, um 240 milljarðar króna, á rætur að rekja til túrista. Þótt þeir fjármunir hafi horfið stendur fastur kostnaður eftir óhaggaður.

Annar aðgerðapakki stjórnvalda var kynntur á þriðjudag. Í fyrri pakkanum voru kynntar hlutabætur, þar sem ríkið greiðir allt að 75% launa starfsfólks út maí, brúarlán til fyrirtækja, markaðsátak í ferðaþjónustu auk frestana og eftirgjafar á opinberum gjöldum. Reynsla síðasta mánaðar hefur sýnt að lækkun starfshlutfalls starfsfólks, niður í 25%, dugar ekki til hjá ferðaþjónustufyrirtækjum. Höfðu mörg þeirra beðið eftir nánari útfærslu á framhaldi og líftíma aðgerðarinnar en þær voru ekki nefndar til sögunnar. Aðilar í ferðaþjónustu áttu fjarfund með ráðherra málaflokksins í vikunni og herma heimildir blaðsins að hann hafi ekki orðið til þess að blása mönnum bjartsýni í brjóst.

Lækningin verði ekki of dýru verði keypt

„Aðgerðapakki tvö gerir nákvæmlega ekkert fyrir okkur. Hann gerir klárlega eitthvað fyrir allra smæstu fyrirtækin en ekkert fyrir stærri aðila. Ég bind vonir við að horft verði til stærri aðila í næsta pakka“ segir Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds sem á og rekur Bílaleigu Akureyrar.

Samkvæmt lögum sem um hlutabæturnar gilda er óheimilt að nýta krafta starfsfólks umfram lækkað launahlutfall. Kallað hefur verið eftir því að því verði breytt en það ekki hlotið hljómgrunn hjá þeim sem ferðinni stýra.

„Við myndum til að mynda vilja vera með fólk í að skipta um dekk, þrífa bíla fyrir sölu, sjá um heimasíðu, markaðsmál og nýta það í stað þess að halda fólki heima á launum. Þar fer hellings framleiðni út um gluggann,“ segir Steingrímur.

Meðal annarra aðgerða sem myndu nýtast bílaleigum landsins að mati Steingríms er að greinin þurfi ekki að borga full vörugjöld af bifreiðunum. Um atvinnutæki sé að ræða en bílaleigur séu eina greinin sem þurfi að greiða vörugjöld í botn af slíkum tækjum. Einnig sé réttlætismál að bifreiðagjöld færist úr föstum kostnaði yfir í eldsneytið.

„Fyrst og fremst verða menn að reyna, eftir því sem unnt er, að koma samfélaginu í samt horf aftur. Lækningin við sjúkdómnum má ekki verða of dýrkeypt,“ segir Steingrímur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .