Breskir embættismenn lýsa aðgerðum Bretlands gegn Íslendingum í kjölfar falls íslensku bankanna sem efnahagslegu stríði og komu væg viðbrögð þáverandi íslenskra stjórnvalda á óvart. Þetta er niðurstaða rannsóknar Eiríks Bergmanns, prófessors í stjórnmálafræði. RÚV greinir frá.

Eiríkur ræddi við embættismenn í bresku fjármála- og utanríkisráðuneytunum sem og manna innan breska Verkamannaflokksins.

„Þeir lýsa þessu sjálfir í viðtölum við mig sem einhvers konar efnahagslegri stríðsaðgerð sem farið hafi verið í gegn Íslandi,“ segir Eiríkur.

Á hann þar við hvernig Bretar neituðu íslenskum bönkum um fjárstuðning sem þeir veittu öðrum bönkum, auk þess sem hryðjuverkalöggjöf var beitt gegn Íslendingum til að frysta eignir bankanna.

„Þegar í ljós kemur að menn ætla að fara í hörkuna, efnahagslega stríðsaðgerð sem þeir orða sjálfir þannig, þá ákveða menn að gefa í og gera þetta af enn meiri hörku en þurfti. Það mundi hjálpa til þess að slá réttan tón pólitískt heima fyrir í þeirri viðleitni að bjarga bönkunum en vera harðir gegn bankamönnum,“ bætir Eiríkur við.

Nánar var fjallað um málið í kvöldfréttum RÚV í gær.