Fjögur hundruð virðisaukaskattsnúmerum hefur verið lokað það sem af er ári. Þetta er dæmi um hertar aðgerðir embættis ríkisskattstjóra vegna hugsanlegra undanskota virðisaukaskattskyldra aðila en samkvæmt nýfenginni lagaheimild er ríkisskattstjóra heimilt að láta stöðva atvinnurekstur launagreiðanda sem ekki hefur sinnt skyldum sínum um skil á staðgreiðslu. Sigurður Jensson, forstöðumaður eftirlitssviðs ríkisskattstjóra, segir í samtali við Fréttablaðið þetta stærstu og umfangsmestu aðgerð sem embættið hafi farið í.

Sigurður segir í samtali við blaðið að fólk þurfi að átta sig á því að þegar það fær VSK-númer þá er það orðið innheimtumaður ríkissjóðs.