Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum hafa ekki áhrif á það hvort meirihluti fólks á aldrinum 20 til 40 ára hyggst kaupa sér húsnæði á næstu þremur árum. Þetta kemur fram í rannsókn Gísla Steinars Ingólfssonar, forstöðumanns vöruþróunar hjá Capacent, sem kannaði stöðuna á fasteignamarkaði meðal fólks á aldrinum 20 til 40 ára fyrir Landsbankann. Rannsóknin verður kynnt á fundi bankans um dönsku leiðina í húsnæðismálum í Hörpu í dag.

Þrír af hverjum fjórum aðspurðra sögðu að þeir væru hvorki líklegri né ólíklegri til þess að kaupa sér fasteign á næstu þremur árum vegna aðgerðaríkisstjórnarinnar. 11,9 prósent sögðust ólíklegri til að kaupa fasteign vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar en 14,3 prósent líklegri.

Meirihluti aðspurðra telur aðstæður á fasteignamarkaði slæmar. 63,3 prósent sögðu þær frekar, mjög eða að öllu leyti slæmar, en rétt rúmlega tíu prósent góðar. Viðhorf gagnvart leigumarkaðnum er neikvæðara. 92,5 prósent telja aðstæður á leigumarkaði slæmar og aðeins 2,3 prósent telja aðstæðurnar góðar.

Langflestir myndu vilja kaupa

Tæplega 58 prósent aðspurðra segja að ef þau skiptu um húsnæði nú væru þau líklegri til þess að kaupa fasteign en að leigja. 30,5 prósent telja líklegra að þau myndu leigja, en 11,7 prósent sögðu annaðhvort bæði vera jafn líklegt eða hvorugt.

Þegar fólk var hins vegar spurt að því hvort það myndi heldur vilja kaupa eða vera á leigumarkaði sögðust níu af hverjum tíu frekar vilja kaupa fasteign en vera á leigumarkaði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .