Hráolíuverð hefur lækkað um 3% á heimsmörkuðu í dag vegna væntinga um aukna framleiðslu Sádi Arabíu í næsta mánuði þegar núverandi samkomulag OPEC ríkjanna og Rússa rennur úr gildi. Er framleiðsluaukningin töluvert meiri en væntingar voru um síðustu daga.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær hugðust stjórnvöld í Sádi Arabíu þá þegar auka framleiðslu sína meira í apríl en áður var talið, sem og Rússar ætla að auka sína framleiðslu, en nú virðist sem bætt hafi verið um enn meira.

Segir Aramco, olíufélag ríkisins að það hafi fengið tilskipun frá stjórnvöldum um að auka framleiðsluna úr 12 milljón, í 13 milljón olíuföt á dag að því er WSJ greinir frá, en áður hafði félagið sagt að framleiðslan yrði aukin 12,3 milljón föt frá og með 1. apríl næstkomandi.

Þegar þetta er skrifað hefur Vestur Texas hráolían lækkað um 3,08%, niður í 33,30 dali fatið, og Brent hráolíufatið lækkað um 2,98%, niður í 36,11 dali.