*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 28. ágúst 2021 11:38

Aðgerðir stjórnvalda virkuðu vel

Forstjóri Alp segir að þótt síðasta ár hafi verið skelfilegt sé félagið lifandi. Aðgerðir stjórnvalda hafi bjargað miklu.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Bílaleigurnar Höldur, Alp og Hertz komu betur undan farsóttinni en bjartsýnustu menn síðasta vors höfðu þorað að spá fyrir um. Innanlandsmarkaður, aðgerðir stjórnvalda og sterkur markaður fyrir notaða bíla spiluðu þar stóra rullu.

Það er ekki ofsögum sagt að bílaleigufélögin, líkt og aðrir aðilar innan ferðaþjónustunnar, séu að nálgast meirapróf í aðlögun að óvæntum aðstæðum. Geirinn hefur ekki aðeins glímt við lúxusvandamálið sem felst í sprengingu í komum ferðamanna heldur einnig búið við gengisflökt, duttlungafulla veðráttuna, fall flugfélags og nú farsóttina.

„Ég ætla ekkert að fara í grafgötur með það, þetta var skelfilegt ár. Við höfum verið einna stærstir í túristunum þannig að þetta kom sér sérstaklega illa fyrir okkur,“ segir Hjálmar Pétursson, forstjóri Alp, sem rekur meðal annars bílaleigurnar Budget og Avis.

Tekjur félagsins í fyrra námu tæpum tveimur milljörðum króna, voru tæplega 4,6 árið 2019, en endanlegt tap nam 804 milljónum. EBITDA var jákvæð um 535 milljónir en afskriftir í geiranum eru háar og þá lék gengismunur félagið grátt. Eigið fé féll úr rúmum milljarði í 297 milljónir.

„Það voru nokkrir hlutir sem björguðu okkur. Kröfuhafar voru mjög skilningsríkir og veittu okkur fresti og þá verður að gefa stjórnvöldum það að aðgerðir þeirra, á borð við hlutabætur, uppsagnastyrki og frestun greiðslna á opinberum gjöldum, reyndust mjög vel. Síðan kom endursölumarkaðurinn óvænt mjög sterkt inn og við gátum losað heilan haug,“ segir Hjálmar.

Félagið sagði upp nærri öllu starfsfólki sínu, fjöldinn fór úr 180 í 40, en hélt eftir ákveðnum kjarnahópi. Þegar leið á þetta ár var síðan hægt að hóa í það aftur til starfa þegar ferðamenn mættu til landsins á nýjan leik. Þegar þeir komu leituðu þeir mjög í bílaleigubílana, enda hópferðabílar ekki jafn fýsilegur kostur í augum fólks í ljósi pestarinnar.

„Eins og staðan er hefur sumarið verið alveg frábært, það besta sem við höfum séð í langan tíma. Við erum byrjuð að borga bönkunum aftur og höfum staðið okkar plikt í því. Það eina sem stendur út af er hvað tekur við í sóttvarnaaðgerðum og hvort flugumferðarstjórar taki upp hjá sér að leggja niður störf,“ segir Hjálmar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Bílaleigur