Aðgerðir Bandaríkjahers í Líbíu kosta um 60 milljónir dala á mánuði, um 7 milljarða króna, samkvæmt minnisblaði frá varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna.

Robert Gates varnarmálaráðherra sagði í síðasta mánuði að ráðuneytið gerði ráð fyrir að kostnaðurinn af aðgerðunum næmi 750 milljónum dala, eða um 40 milljónum dala á mánuði.

Samkvæmt minnisblaðinu var kostnaðurinn um miðjan maí þegar orðinn 664 milljónir dala.  Atlantshafsbandalagið hefur ákveðið að halda aðgerðum áfram og því ljóst að kostnaðurinn verður mun meiri og fari yfir milljarð dala.