Anne Sibert var sá fulltrúi í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands sem tregastur var til þess að lækka stýrivexti á árinu 2010. Það ár lækkuðu vextir hratt, um 0,5–1% við hverja vaxtaákvörðun. Sibert vildi á öllum fundum nefndarinnar það ár halda stýrivöxtum óbreyttum eða lækka þá minna en seðlabankastjóri og formaður nefndarinnar lagði til. Á einum fundi var hún fjarverandi.

Í byrjun vikunnar var tilkynnt um að Sibert sé hætt í peningastefnunefndinni. Hún var skipuð af forsætisráðherra í mars 2009 og var því nefndarmaður í þrjú ár. Sæti hennar tekur dr. Katrín Ólafsdóttir, lektor í viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík.

Álit hvers nefndarmanns á einstökum vaxtaákvörðunum eru birt í ársskýrslu Seðlabanka Íslands. Nýjasta skýrslan er fyrir árið 2010. Skýrsla síðasta árs verður birt samhliða ársfundi bankans 29. mars næstkomandi.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.