Ekki verður ráðist í úttekt á starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs að sinni. Þetta er niðurstaða Ríkisendurskoðunar eftir að forkönnun fór fram. Stofnunin var með 54 milljóna króna uppsafnaðan halla á síðasta ári.

Í tilkynningu frá Ríkisendurskoðun segir að forkönnun hafi leitt í ljós að stjórnskipulag Vatnajökulsþjóðgarðs sé flókið og ógagnsætt en starfshópi á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytis hafi verið falið að endurskoða það. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að í þeirri vinnu verði lögð áhersla á að skýra verkaskiptingu, valdmörk og ábyrgð við stjórnun þjóðgarðsins. Þá  telur Ríkisendurskoðun mikilvægt að kannaðir verði kostir og gallar þess að sameina stofnanir sem annast þjóðgarða og friðlýst svæði.

Stefnt er að því að greiða niður hallann á rekstri stofnunarinnar að fullu á næsta ári en til að það geti gengið eftir þurfi fjárveiting að haldast sambærileg milli ára. Ríkisendurskoðun hvetur umhverfis- og auðlindaráðuneytið til að hafa þessa stöðu í huga við fjárlagagerð vegna ársins 2014.