Hlutabréf í Adidas hækkuðu um 6% eftir að upplýst var um að Reebok merkið yrði líklega selt á næstunni. Hópur fjárfesta hefur gert sig líklegan til að bjóða í Reebok. Hlutabréf í Adidas hafa lækkað um 40% það sem af er ári.

Adidas keypti Reebok árið 2006 en hefur ekki náð að auka sölu sem neinu nemur. „Frá sjónarhóli Adidas myndu þeir fá gott verð fyrir. Hvort stjórnendur félagsins muni samþykkja það er hinsvegar annað mál, því í þvi myndi felast viðurkenning á að þeir hafi ekki staðið sig," segir Joerg Phillipp Frey, sérfræðingur við Warburg rannsóknarstofnunina í samtali við BBC.

Reebok merkið gaf ágætlega af sér fljótlega eftir að það var keypt 2006 en síðan þá hefur markaðshlutdeildin dregist saman. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.