Adidas er að selja dótturfélag sitt Reebok til Authentic Brands Group (ABG) fyrir 2,1 milljarð evra, eða um 310 milljarða króna.  Adidas keypti Reebok fyrir 3,8 milljarða dala í janúar 2006 til að þessa saxa á forskot Nike á Ameríku-markaðnum, sérstaklega þegar kemur að íþróttaskóm. Reebok hefur þó ekki staðist væntingar og hluthafar Adidas hafa ítrekað kallað eftir sölu á bandaríska dótturfélaginu.

Þýski íþróttarisinn hafði áður selt fyrirtækin Rockport og CCM Hockey ásamt vörumerki golfkappans Greg Norman fyrir samtals 400 milljónir evra en þau voru öll hluti af upphaflegu Reebok kaupunum.

ABG, stofnað árið 2010, rekur í dag yfir 30 vörumerki í tæplega 6 þúsund verslunum. Innan ABG samstæðunnar eru fatakeðjunnar Forever21 og Aéropostale ásamt Sports Illustated tímaritinu. Í síðast mánuði lagði ABG  formlega inn beiðni fyrir frumútboð í Bandaríkjunum.

„Við höfum haft augun á Reebok í mörg ár og við erum spennt að geta loksins tekið við þessu þekkta merki,“ segir Jamie Salter, stofnandi og forstjóri ABG, í tilkynningu .

Eftir að Kasper Rorsted tók við sem forstjóri Adidas árið 2016, þá réðst hann strax í stefnumótandi aðgerðir til að gera Reebok arðbært á ný. Reebok náði þó aldrei sömu hæðum og Adidas merkið.

Sala Reebok á fyrri helmingi ársins nam 122 milljörðum króna, samanborið við 89 milljarða á sama tíma í fyrra. Fyrirtækið tapaði 69 milljónum evra á fyrstu sex mánuðum 2020, eða um 10 milljarða króna, miðað við núverandi gengi, en skilaði um 10 milljarða hagnaði á fyrri hluta 2021.

Greinendur telja að nýlegt samstarf við fræga einstaklinga, líkt og Cardi B, og aukin áhersla á kvenfatnað hafi bætt stöðu Reebok, samkvæmt frétt Reuters .