Adidas AG hefur nú sett sér markmið um að tvöfalda sölu á varningi til kvenna. Þessu markmiði ætlar fyrirtækið að ná fyrir árið 2020 og munu samfélagsmiðlar spila umfangsmikið hlutverk í þeirri sókn.

Samkvæmt fyrirtækinu verður þó ekki stuðst við hefðbundnar auglýsingar, heldur mun fyrirtækið greiða áhrifafólki á samfélagsmiðlum til þess að drífa söluna áfram.

Eric Liedtke, stjórnarmaður hjá Adidas, segir það skila litlu að einbeita sér bara að knattspyrnuliðum og íþróttastjörnum. Rannsóknir fyrirtækisins benda til þess að Instagram, YouTube og Snapchat stjörnur hafi hvað mest áhrif á kaupákvarðanir kvenna í dag.

Adidas hefur því sett saman teymi af 25 konum, sem hafa væna fylgjendahópa á samfélagsmiðlum. Þetta teymi mun þá koma til með að sjást í Adidas varningi á samfélagsmiðlum.