Noregur, Evrópusambandið og Færeyjar hafa formlega hafnað ósk Íslendinga um aðild að makrílsamningi þeirra fyrir árið 2020. Því er þó „haldið opnu að ræða síðar á árinu um hugsanlega aðild frá árinu 2021.“

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skýrir frá þessu í grein, sem birtist í Morgunblaðinu í dag en var einnig sent til Fiskifrétta í gærkvöld, en blað vikunnar var þá farið í prentun.

„Þessi viðbrögð eru mikil vonbrigði eftir að við höfðum leitað allra leiða til lausnar. Ljóst er á þessum svörum að hin strandríkin eru ekki tilbúin til samstarfs á þeim grunni sem lagt var upp með. Ég er því miður ekki bjartsýnn á að viðhorf þeirra breytist á næstunni,“ segir Kristján Þór.

„Við megum hins vegar ekki gefast upp á að leita samkomulags. Það eru sameiginlegir hagsmunir allra að ná samkomulagi sem tryggir sjálfbærar veiðar og mun ég áfram beita mér í þeim málum, enda er ljóst að langvarandi ofveiði stofnanna mun að endingu draga úr afrakstursgetu þeirra og allir munu þá tapa.“

Greinin í heild fer hér á eftir:

Allir tapa ef ekki semst

Staðan er snúin í strandríkjasamningum Íslands. Í tæpan áratug hefur ekki verið til staðar samkomulag um stjórn veiða úr þremur stóru uppsjávarstofnunum sem við Íslendingar stundum veiðar úr. Hefur heildarveiði makríls, kolmunna og norsk-íslenskrar síldar því verið langt umfram vísindaráðgjöf á hverju ári. Þetta er ófremmdarástand, sem ekki getur endað með öðru en stofnarnir láti undan síga. Ef ekki næst samkomulag milli strandríkjanna munu allir tapa. Það er heldur ekki vinaþjóðum sæmandi að standa í slíkum deilum sem bæði hafa neikvæð áhrif á samskipti og stofna fiskistofnunum í hættu. Við höfum dæmi úr sögunni um það hvernig slíkt getur endað, og er þar nærtækast hrun norsk-íslensku síldarinnar í lok sjöunda áratugs síðustu aldar.  Það liðu 27 ár frá hruni stofnsins þar til íslensk skip gátu að nýju hafið veiðar úr þeim stofni.

Ísland hefur viljað viðhalda þeim samningum sem gerðir hafa verið um stjórn veiða á síld og kolmunna, en aðrar þjóðir hafa sagt sig frá þeim og sett sér einhliða kvóta sem er hærri en sá hlutur sem þær höfðu samkvæmt samningunum. Við höfum undanfarin ár brugðist við því með því að hækka okkar kvóta til að þessar aðgerðir verði ekki til þess að minnka hlut Íslands úr raunverulegum heildarveiðum. Ekki hefur náðst heildarsamkomulag um stjórn makrílveiða og Ísland því ekki getað miðað kvótasetningu sína við neitt fyrra samkomulag.

Frumkvæði Íslands

Ég hef, allt frá því ég varð sjávarútvegsráðherra, reynt að beita mér fyrir því að samkomulag næðist, reynt að taka frumkvæði til að þoka málum áfram í stað þess að bíða aðgerðalaus fram að skipulögðum haustfundum veiðiþjóðanna. Þeir fundir hafa ekki skilað árangri í þessu máli í áraraðir.  Til að sýna samningsþjóðunum að okkur væri alvara í að reyna að ná sáttum í deilum um fiskveiðisamninga ákvað ég í desember sl. að Ísland tæki sér einhliða lægri kvóta í síld og kolmunna en hefði verið samkvæmt viðmiðum síðustu ára, þ.e. kvóta samkvæmt þeirri hlutdeild sem Ísland hafði síðast þegar í gildi voru samningar um þessa stofna án þess að elta þær hækkanir nágrannaþjóða okkar sem valda ofveiðinni.

Kom ég því einnig skýrt á framfæri við hin strandríkin að þetta væru skilaboð til þeirra um eindreginn samningsvilja og frumkvæði sem miðaði að því að þoka málum áfram.  Til að fylgja þessu eftir fóru embættismenn ráðuneytisins jafnframt til funda við samningamenn Evrópusambandið, Færeyja og Noregs. Þeir ítrekuðu að okkar markmið væri að koma Íslandi inn í makrílsamninginn áður en ég ákvæði makrílkvóta Íslands í lok apríl. Slíkt myndi verða fyrsta skrefið í átt að ná heildstæðum samningum um alla stofnana þrjá.

Viðbrögðin mikil vonbrigði

Formleg viðbrögð við umleitunum okkar hafa nú borist með sameiginlegum skilaboðum frá Noregi, ESB og Færeyjum. Þar kemur skýrt fram að ekki verði opnað fyrir viðræður um aðild Íslands að makrílsamningi þeirra fyrir árið 2020, en því haldið opnu að ræða síðar á árinu um hugsanlega aðild frá árinu 2021.

Þessi viðbrögð eru mikil vonbrigði eftir að við höfðum leitað allra leiða til lausnar. Ljóst er á þessum svörum að hin strandríkin eru ekki tilbúin til samstarfs á þeim grunni sem lagt var upp með. Ég er því miður ekki bjartsýnn á að viðhorf þeirra breytist á næstunni.

Áfram unnið að samkomulagi

Ég mun því á næstunni taka til skoðunar hver viðbrögð Íslands verða við þessu svari.  Það er ljóst að samningsvilji er ekki til staðar og því mun ég þurfa að taka ákvörðun fyrir lok apríl um einhliða aflamark í makríl og hugsanlega endurskoða fyrri ákvarðanir varðandi aflamark þessa árs í kolmunna og norsk-íslenskri síld.

Við megum hins vegar ekki gefast upp á að leita samkomulags. Það eru sameiginlegir hagsmunir allra að ná samkomulagi sem tryggir sjálfbærar veiðar og mun ég áfram beita mér í þeim málum, enda er ljóst að langvarandi ofveiði stofnanna mun að endingu draga úr afrakstursgetu þeirra og allir munu þá tapa.