Ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hægja á aðildarviðræðum við Evrópusambandið fram yfir þingkosningar í apríl seinkar vinnu við fjóra kafla um þrjá mánuði. Vinna mun halda áfram við 16 kafla sem enn eru opnir. „Það þýðir í reynd að verið er að vinna í 18 köflum af þeim 22 sem eftir eru,“ segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Hann svaraði því til að nálgunin væri skynsamleg og farsæl. „Það er svo stutt til kosninga að ég tel ekki eðliegt að þingið taki ekki á þyngstu málunum ofan í kosningarnar.“ Á Alþingi í gær sagði Össur tvo kafla sérstaklega erfiða. Það eru þeir sem fjalla um landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál.

Össur var fyrir svörum í sérstakri umræðu á Alþingi í dag um þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hægja á viðræðunum. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, óskaði eftir umræðunum.

Bjarni sagði m.a. að þeir sem hafi keyrt aðildarviðræðurnar áfram verði að segja skýrum orðum hver hin raunverulega staða er. „Það var staðið að málum í upphafi á afskaplega veikum forsendum og við því að búast að þetta yrði eintómt klúður og hægagangur,“ sagði hann.

Össur svaraði því á móti að alltaf sé gaman að eiga orðastað um aðild að Evrópusambandinu. Á hinn bóginn hafi alltaf legið fyrir að hver svo sem samningurinn verður sem aðildarviðræðurnar skila þá muni þjóðin fá að kjósa um það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið grundvelli samningsins.

„Ég tel það í anda lýðræðis að ný ríkisstjórn fái að setja mark sitt á afstöðu íslands í grundvallarmálum. Mestu skiptir að við erum farin að sjá til lands,“ sagði Össur.