Helsta vandamálið við notkun Landeyjahafnar er hve aðkoma að höfninni er erfið við vissar aðstæður, að sögn skipstjóra Herjólfs og Baldurs, sem helst nota höfnina. Þetta kemur fram í skýrslu sem Vilbergur Magni Óskarsson, skólastjóri Skipstjórnarskóla Tækniskólans, vann um höfnina og birt er í heild sinni á Eyjar.net .

Vilbergur kannaði viðhorf skipstjóra Herjólfs og Baldurs um siglingu til Landeyjarhafnar og sýn þeirra á aðstæður í og við höfnina. Fram kemur í skýrslunni að fyrir utan mynni hafnarinnar séu grynningar sem fara þurfi yfir. Þegar skipi sé siglt yfir grynningarnar verði það fyrir grunnvatnsáhrifum sem geri það að verkum að erfiðara er að hafa stjórn á skipinu.

Skipstjórarnir segja aftur á móti að höfnin sé ágæt, en það sem hái henni helst sé að hún sé þröng fyrir skip af þeirri stærð sem Herjólfur er. Hún henti þó ágætlega fyrir skip af þeirri stærð sem hún er hönnuð fyrir.