Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, segir að hún fagni aukinni alþjóðlegri samkeppni á smásölumarkaði á Íslandi, en hún bendir á að íslensk fyrirtæki eiga á brattann að sækja þar sem að erfitt sé fyrir þau að ná sömu stærðarhagkvæmni og erlendu risarnir. Ásta bætir við að að íslensk löggjöf verði að endurspegla hnattvæddann heim og alþjóðlega samkeppni og vísar þá sérstaklega til þess að Samkeppniseftirlitið hafi hafnað samruna Haga og Lyfju í þessu samhengi. Þetta kemur fram í grein sem birtist á Bloomberg þar sem rætt er við hina ýmsu aðila um breytingar á íslenska smásölumarkaðnum.

Íslendingar kvarta mest yfir verði og veðri

„Algengasta umkvörtunarefnið á götum Reykjavíkur - að veðrinu undanskildu - eru verðin,“ svona hefst greinin sjálfan en þar er rifjað upp að nánast átta ár eru frá því að McDonald's yfirgaf Íslands vegna hárrar verðlagningar - en nú eru tímarnir breyttir.

Eins og flestir Íslendingar hafa tekið eftir - fyrir utan þá sem hafa búið undir steini - þá hefur Costco stimplað sig allrækilega inn í íslensku þjóðarsálina á undanförnum mánuðum. Einnig er minnst á það að sænska keðjan H&M hyggist opna tvær búðir á Íslandi í lok þessa mánaðar, með mikilli pomp og prakt. Þó er tekið fram að Dunkin' Donuts hafi riðið á vaðið árið 2015. Samkvæmt viðmælendum í greininni hefur koma smávöruverslananna verið mikil búbót fyrir íslenska neytendur.