Vilhjálmur Vilhjálmsson tók við starfi forstjóra HB Granda í september 2012 eftir að hafa stýrt uppsjávardeild félagsins í átta ár. Áður hafði hann starfað sem framkvæmdastjóri Tanga á Vopnafirði þar til félagið sameinaðist HB Granda árið 2005. Frá því að Vilhjálmur varð forstjóri HB Granda hefur félagið ráðist í mikla endurnýjun á skipaflota sínum og verða fimm ný skip í flotanum fyrir árslok. Endurnýjunin mun leiða til mikillar hagræðingar hjá félaginu en sterk króna og breyttar markaðsaðstæður kalla einnig á aðrar hagræðingaraðgerðir á borð við lokun bolfisksvinnslu á Akranesi.

Þið tókuð á móti ísfiskstogaranum Engey á dögunum og það er von á systurskipunum Akurey og Viðey síðar á árinu. Geturðu sagt mér aðeins frá hugmyndinni á bakvið kaupin á þessum skipum?

„Það eru komin nokkur ár síðan við sáum fram á að félagið hefði alla getu til að fara að endurnýja flotann. Hann er orðinn það gamall að þeir sem eru að leita að varahlutum og öðru í þetta eru kallaðir fornleifafræðingar, þannig að rekstraröryggið fer minnkandi. Þessi skip hafa skilað frábærum árangri, en aðbúnaður áhafnar stenst ekki nútímakröfur og það eru komnar nýjungar sem leiða til betri meðferðar á afla. Okkur þótti því tímabært að ráðast í þessi verkefni. Að auki er hagstætt verð á nýsmíðum í dag vegna verkefnaleysis á skipasmíðastöðvum og lánsfjármagn hefur aldrei verið ódýrara. Eiginfjárstaða félagsins er líka góð, þannig það lá beint við að fara í þessa endurnýjun.“

Keyra 8.000 tonn fram og til baka

Ef litið er á breytingar í afkomu á milli ára var hagnaðurinn árið 2016 töluvert minni en árið á undan. Hverjar eru skýringarnar á því?

„Ein skýringin er náttúrlega sú að það var mun meiri loðnuveiði árið 2015. Síðan hefur styrking krónunnar heldur verið að draga úr afkomunni, hlutur kostnaðar í krónum hefur hækkað verulega miðað við tekjur á undanförnum árum. Við gerum upp í evrum og við höfum horft á svipað afurðaverð gegnumsneitt undanfarin tvö ár en innlendur kostnaður hefur hækkað verulega.“

Hafið þið velt því fyrir ykkur hver eru ykkar þolmörk hvað varðar gengi krónunnar?

„Við reynum bara að laga okkur að breyttum aðstæðum og hagræða þar sem við getum, eins og til dæmis með áformum okkar um að loka á Akranesi, sem mun draga verulega úr kostnaði. Það má segja að við höfum komist upp með að halda þeirri starfsemi áfram án taps fram að þessu en nú erum við farin að tapa verulega á því. Sú hagræð­ ing liggur dálítið beint við, skipin eru að landa hérna í Reykjavík en svo erum við keyra hátt í 8.000 tonn á vöruflutningabílum til Akraness og vinna þar, og keyra svo aftur til baka til útflutnings í Reykjavík, á Keflavíkurflugvelli eða í þurrkun á Reykjanes. Þetta er hagræð­ ing sem liggur mjög í augum uppi fyrir okkur að fara í.

Maður veltir því kannski fyrir sér af hverju það var ekki búið að gera þetta fyrr.

„Ég hef nú eiginlega frekar átt von á þeirri spurningu heldur en af hverju við erum að fara í þetta. Ástæðan er sú að við höfum komist upp með þetta án þess að tapa á því hingað til, en núna er styrking krónunnar að koma fram í því að þetta er gert með tapi. Við getum ekki verið að standa í rekstri til framtíð­ ar sem er tap á, ég held það sé mjög andstætt samfélagslegri ábyrgð, svo ég leggi mér þau orð í munn.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .