Gunnar var viðmælandi Viðskiptablaðsins í síðustu viku. Þar ræddi hann meðal annars breytingarnar sem eru að verða á sviði upplýsingatækni og hvernig við tökumst á við þær

Erum við sem samfélag of hæg að bregðast við þessum breytingum? Eru skólarnir okkar að taka þetta inn, gera kerfin okkar sér grein fyrir hvað er að gerast og þróast í takt við þetta?

„Ég held að kjarni allra umbreytinga er að þú þarft svolítið að taka á móti þeim. Það er hart að segja þetta en annaðhvort aðlagastu eða missir af partíinu. Það á ekki bara við okkur sem fólk eða fyrirtæki, samfélagið eða hið opinbera, það þurfa allir að leggjast á eitt og átta sig á því að þau störf sem við erum að sýsla við í dag og síðustu tíu ár – þetta er allt að fara að breytast. Þar af leiðandi þurfa innviðir og hvernig við ölum upp næstu kynslóðir að breytast.

Það þarf ekki einhverja u-beygju, menn þurfa bara að vera meðvitaðir um að það sem framtíðin kallar eftir er frábrugðið því sem við þekkjum í dag. Við erum með óendanlegan fjölda af dæmum um eitthvað sem er ekki notað í dag en var fyrir nokkrum árum eða áratugum ómissandi til að komast gegnum daginn. Svoleiðis breytast hlutir. Þegar þú horfir á háskólasamfélagið, vísindasamfélagið, framhaldsskóla, grunn- og leikskóla sérðu að öll kennsluskrá og hvernig við undirbúum næstu kynslóðir fyrir framtíðina þarf að breytast. Við sitjum hérna og tölum um það sem við kunnum og gerum.

Ef ég hugsa um börnin mín, 19 ára strák og 23 ára stúlku, þá senda þau ekki tölvupóst nema bara til mín. Tölvupóstur í þeirra huga er gamaldags vinnutól rétt eins og faxið í okkar huga. Svo á ég eina tíu ára. Hún er og verður svo með allt annað notkunarmynstur en hin tvö, líka þegar hún verður eldri. Þetta er það sem skólakerfið þarf svolítið að taka á móti. Ég óttast að við tökum ekki jafn vel á móti þessum breytingum og mörg önnur ríki og margt þarf að breytast til þess að við séum raunverulega samkeppnishæf og getum gert okkur gildandi í þessu opna hagkerfi sem heimurinn er í dag.

Ísland er ekki lengur afmarkaður markaður. Ef þú ætlar að ná árangri, sama í hvaða bransa, þá þarftu að hugsa stærra en Ísland. Þetta er örmarkaður og tjörnin er lítil og við þurfum að undirbúa krakkana okkar öðruvísi. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig en ég teldi holla æfingu að endurskoða kennsluskrár á öllum stigum og reyna þar að horfa sterkar á hvað tækni er orðin stór hluti af okkar daglega lífi. Umræðan sem víða er í gangi er þó mjög lofsverð en það þarf meira og það þarf að horfa til allra skólastiga. Ef við hjálpum ekki skólasamfélaginu að átta sig á því hvað skiptir mestu máli til framtíðar, hvaða greinar það eru og hvernig við kveikjum áhuga á þeim greinum er ljóst að við gætum setið eftir.“

Gunnar hefur jafnframt áhyggjur af því að Íslendingar séu ekki nógu samstíga. „Mér finnst frábært að sjá gerjunina víða en ég þekki svo mörg dæmi um hvað gerjunin er hamlandi því menn geta ekki sammælst um hana. Það er líka í erfðamengi okkar Íslendinga að vilja koma í veg fyrir að náunginn geti gert hlutina eins og þarf að geta gert þá. Við höfum alla burði til að keppa til dæmis við útlönd um til dæmis gagnaver.

En svo hefurðu aðila á markaði sem eru að keppa, hagsmunaaðila og þar fram eftir götunum sem allir ættu að hafa það sameiginlega að markmiði að gera vegferð Íslands sem stærsta og besta. Því við erum að keppa við Noreg, Danmörku, Svíþjóð, Írland og fleiri. En ef þú berð saman það sem Íslendingar eru að gera og það sem Svíar eru að gera, hvaða fjármagn þeir eru að setja í þetta – til að sækja nýjan bisness og skattaívilnanir – og þá stefnu að norðurhluti Svíþjóðar verði himnaríki fyrir gagnaverstengda starfsemi, þá er þetta ekki líkt því.

Íslendingar eru allir í sínu horni á meðan þeir eru raunverulega með áætlun og meðan þetta er endalaust streð hér heima því við náum ekki að sammælast um að ávinningurinn í stóru myndinni getur nýst okkur öllum. Og við höfum ekkert svakalega langan tíma vegna þess að keppnin um að vera eftirsóknarverður staður til að setja niður orkufreka upplýsingatæknivinnslu er akkúrat núna. Tíminn er núna.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .