Adobe hefur náð samkomulagi um að kaupa bandaríska hönnunarfyrirtækið Figma fyrir ríflega 20 milljarða dala. Þar af verður um helmingur greiddur með reiðufé en hluthafar Figma eignast einnig hlut í Adobe. Um er að ræða stærstu kaup í sögu Adobe.

Figma var stofnað árið 2012 og er með höfuðstöðvar í San Fransisco. Lausn félagsins gerir forriturum og grafískum hönnuðum kleift að vinna saman og hanna hluti á borð við glærukynningar og notendaviðmót á snjallsímaforritum. Félagið lauk 200 milljóna dala fjármögnun í júní 2021 og var þá metið á 10 milljarða dala.

Hlutabréf Adobe hafa lækkað um meira en 15% í dag en auk framangreindra kaupa á Figma birti félagið uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung. Tekjur hugbúnaðarfyrirtækisins námu 4,4 milljörðum dala á fjórðungnum og félagið hagnaðist um 1,1 milljarð dala. Adobe birti einnig afkomuspá fyrir fjórða ársfjórðung sem var undir væntingum fjárfesta.

Markaðsvirði Adobe var um 174 milljarðar dala við lokun markaða í gær en hefur fallið um tæplega 27 milljarða dala í dag.