Adobe Systems hafa kynnt tekjuspá sem er nokkuð lægri en margir höfðu búist við, en í kjölfarið lækkuðu hlutabréf félagsins um 2,6% í gær.

Adobe framleiðir forrit á borð við Photoshop, Flash og Acrobat. Á öðrum ársfjórðungi jukust tekjur félagsins um 41%. Á þriðja ársfjórðungi býst félagið við að hala inn á bilinu 855-885 milljónir dala í tekjur. Samkvæmt frétt Reuters bjuggust greiningaraðilar að meðaltali við 876 milljóna dala spá.

Samkvæmt frétt Reuters sagði framkvæmdastjóri félagsins að þrátt fyrir að félagið hafi haldið sínu striki við erfiðar aðstæður þá fari að harðna á dalnum fljótlega ef efnahagsástandið skánar ekki.