Adolf Ingi Erlingsson, fyrrverandi íþróttafréttamaður RÚV, undirbýr málshöfðun gegn RÚV vegna eineltis. Fréttastofa 365 miðla greindi frá þessu.

Adolf Ingi segist hafa þurft að berjast fyrir kjörum sínum þegar honum var þröngvað til að fara af sjónvarpsvöktum og settur á vaktir á vef og í útvarpi. Hann hafi samþykkt fyrirkomulagið með þeim skilmálum að hann héldi sínum tekjum. Það hafi síðan verið svikið og hann reynt að fá leiðréttingu á því.

Á fundi með sér, formanni félags fréttamanna, mannauðsstjóra RÚV og yfirmanni íþróttafréttamanna hafi mannauðsstjórinn og yfirmaður íþróttadeildar haldið því fram að aldrei hafi verið samið um að Adolf héldi sínum launum. „Ég ætla í mál við Ríkisútvarpið fyrir einelti. Það verður að stöðva þennan kúltúr innan fyrirtækisins,“ sagði Adolf Ingi í samtali við fréttastofu 365.