Bankasýsla ríkisins var stofnuð með lögum nr. 88/2009 sem tóku gildi í ágúst árið 2009 en hún fer með eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Samkvæmt lögunum á stofnunin að hafa lokið störfum eigi síðar en fimm árum frá því að hún var sett á fót og á hún þá að vera lögð niður. Nú, fimm árum eftir að Bankasýslan var stofnuð, er enn ekki ljóst hver framtíð hennar verður.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, segir Fjármálaráðuneytið enn ekki hafa haft samráð við Bankasýsluna um framtíð hennar. Segist hann þó vera opinn fyrir því að skoða aðrar útfærslur á starfsemi hennar ef stjórnvöld hafi áhuga á slíku.„Það gæti t.d. verið hentugt að sameina Eignasafn Seðlabanka Íslands við Bankasýsluna auk þess sem ég held að stofnunin gæti tekið að sér að sjá um aðrar eignir ríkisins,“ segir Jón Gunnar.

„Ríkissjóður heldur nú um sextíu milljörðum af víkjandi lánum til Arion banka og Íslandsbanka og nú liggur fyrir að það þurfi að innleiða tilskipun um slita- og skilameðferð fjármálafyrirtækja og þá þarf að setja á laggirnar sérstakt stjórnvald til þess. FME og Seðlabankinn eru kannski ekki alveg hentugustu aðilarnir í það, en sambærilegar stofnanir og Bankasýslan í Evrópu hafa verið að taka að sér slíkt hlutverk.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .