Sælgætisgerðin Freyja þurfti ekki aðeins að glíma við afleiðingar farsóttarinnar, því eldsvoði kom upp í lagerhúsnæði félagsins í febrúar á síðasta ári. „Það kviknaði í hjá nágranna okkar, sem er í sömu byggingu og lagerinn og skrifstofurnar, og það slapp ótrúlega vel. Það trúir því í raun enginn að það hafi verið svo að kalla engar skemmdir hjá okkur. Slökkviliðið vann þarna þrekvirki og við getum vart þakkað því nægilega. En þetta kom okkur svona í krísugírinn áður en Covid fór á flug,“ segir Pétur Thor Gunnarsson, framkvæmdastjóri Freyju.

Þegar félagið hafði aðlagast brunanum tók farsóttin hins vegar við og þar segir Pétur að á ný hafi allt gengið eins vel og kostur var á. Verkstjórar hafi staðið sig vel í að hólfa allt niður og félagið hafi þurft að fjölga starfsfólki, sérstaklega í páskavertíðinni, þar sem það gat ekki flakkað milli verka eins og áður.

„Samhliða auknum kostnaði jókst salan og við merktum að fólk leyfði sér nammi á meðan á heimavinnu og einangrun stóð. Við settum líka aukið púður í vöruþróun og settum nýjungar á markað til að leggja okkar af mörkum til að létta landanum lundina. Þá seldist talsvert meira síðasta sumar þegar fólk var á ferðalögum. Heilt yfir var afkoman á pari við árin á undan,“ segir Pétur. Þótt aukinn kostnaður hafi fallið til vegna sóttkvía og -varna sótti félagið ekki í úrræði stjórnvalda.

„Við tókum á okkur heilmikinn aukakostnað en mátum það sem svo að það væru einfaldlega önnur fyrirtæki sem þyrftu meira á því að halda. Miðað við óbreytt ástand sjáum við fyrir okkur að svo verði áfram,“ segir Pétur. Áskoranirnar séu þó ekki búnar og þar muni mestu um ástand birgðakeðjunnar. „Það hefur verið flóknara og tímafrekara að sækja aðföng og það hefur verið skjálfti á markaðnum sem hefur eiginlega bara versnað eftir því sem á líður. Enn sem komið er höfum við þó sloppið við skort.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .