Aðsókn að almennum sýningum leikinna kvikmynda í fullri lengd á landinu öllu hefur minnkað um 16 af hundraði frá árinu 2009. Þetta kemur fram í nýrri frétt Hagstofunnar .

Á síðasta ári nam aðsóknin tæplega 1,38 milljónum gesta samanborið við tæplega 1,65 milljónir gesta árið 2009. Gestir kvikmyndahúsanna hafa ekki verið færri en frá árinu 2005.

Aðsókn síðasta árs var um 1,5 af hundraði lægri en árið á undan, eða ríflega 21 þúsund gestum færri en árið áður. Aðsóknin jafngildir því að hver landsmaður hafi séð almenna kvikmyndasýningu rúmlega fjórum sinnum á árinu.