Árið 2015 var aðsóknarmesta ár Bíó Paradís frá upphafi, en rúm 48% aukningu varð á bíógestum frá árinu 2014, þetta kemur fram í fréttatilkynningu fyrirtækisins í dag.

Bíó Paradís fagnar um þessar mundir sjötta starfsári sínu en fyrirtækið er sjálfseignastofnun sem er stofnað með það að markmiði að efla og styðja kvikmyndamenningu og kvikmyndafræðslu á Íslandi.

Síðan Bíó Paradís tók til starfa haustið 2010 hafa yfir 1400 kvikmyndir frá 60 löndum verið sýndar í húsinu, yfir 270 íslenskar stutt- og heimildamyndir verið sýndar, tekið hefur verið á móti 33.000 börnum í kvikmyndafræðslu ásamt því að félagið hefur staðið að hátíðum og kvikmyndatengdum viðburðum.

Ætla má að yfir 400.000 gestir hafi notið kvikmynda og annarra viðburða í húsinu og fjöldi þeirra mynda sem gefnar hafa verið út á Íslandi, sem eru frá öðrum svæðum en Hollywood, hefur meira en þrefaldast á tímabilinu.

Bíó Paradís er eini meðlimur Europa Cinemas á Íslandi, og CICAE, alþjóðasamtökum listrænna kvikmyndahúsa, og í þessum mánuði varð Bíó Paradís fyrsti íslenski meðlimur samtakanna Europa Distribution, en það eru samtök dreifingaraðila sem sérhæfa sig í evrópskum kvikmyndum.