Niðurstöður nýrrar könnunar sem Gallup gerði meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins endurspegla góðar aðstæður í atvinnulífinu. Þar meta stjórnendur fyrirtækja aðstæður með svipuðum hætti og á árabilinu 2004 til 2007. Frá þessu er greint í frétt á vef Samtaka atvinnulífsins.

Í könnuninni kemur meðal annars fram að vinnuaflsskortur sé nokkur, og að tæpur hemingur fyrirtækja finni fyrir honum, en hann hefur þó ekki farið vaxandi frá síðustu könnun. Reiknað er með tæplega 2% fjölgun starfsmanna á almennum vinnumarkaði á næstu sex mánuðum.

Vísitala efnahagslífsins
Vísitala efnahagslífsins
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Búast við 2% verðbólgu

Stjórnendur 400 stærstu fyrirtækjanna búast við 2,0% verðbólgu á næstu 12 mánuðum og jafnframt að innlend aðföng hækki um rúmlega 1%. Verðbólguvæntingar stjórnenda hafa minnkað og eru einnig minni en þær hafa verið síðastliðin sex ár.

Atvinnulíf í blóma

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, er enn í hæstu hæðum eins og undanfarið ár, segir í frétt SA.

Yfirgnæfandi meirihluti stjórnenda, 83% telur að aðstæður í atvinnulífinu séu góðar, en einungis 2% telja þær slæmar. Sjávarútvegurinn sker sig nokkuð úr þessu mynstri, þar sem að um 12% stjórnenda sjávarútvegsfyrirtækja telja aðstæður slæmar, en það má sérstaklega rekja til sterks gengis krónunnar.

Aðstæður geta enn batnað

Aðstæður í atvinnulífinu geta þó einnig batnað að mati stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins telja einnig að staðan í atvinnulífinu verði jafngóð eða betri eftir sex mánuði. 39% telja að aðstæður batni, 52% að þær verði óbreyttar en 9% að þær versni. Minnst bjartsýni á framvindu atvinnulífsins er meðal stjórnenda í sjávarútvegi. Þar telja 28% að aðstæðurnar muni versna, en einnig ber á áhyggjum í byggingariðnaði, þar sem að 15% stjórnenda telja að aðstæður versni.

Búast við meiri hagnaði

„Töluvert fleiri stjórnendur búast við meiri hagnaði á þessu ári m.v. síðastliðið ár en þeir sem búast við að hann minnki. 39% stjórnenda búast við að hagnaður fyrirtækjanna sem þeir stjórna, sem hlutfall af veltu, aukist milli ára en 19% að hann minnki. Meirihluti stjórnenda í sjávarútvegi búast við minni hagnaði og 25% stjórnenda í flutningum og ferðaþjónustu. Bjartsýni um aukinn hagnað er mest í verslun og þjónustu,“ segir í frétt Samtaka atvinnulífsins.

Aukin framlegð fyrirtækja

Stjórnendur búast við því að framlegð fyrirtækjanna EBITDA, á næstu sex mánuðum verði svipaðar og í síðustu könnun. 39% þeirra reikna með því að framlegð aukist, 19% að hún minnki, en 42% telja líklegt að hún standi í stað.

Horfur eru lakastar í sjávarútvegi en bestar í byggingarstarfsemi. Að mati stjórnenda hefur framlegð í heild heldur batnað á síðustu sex mánuðum.

Fjárfestingar hafa aukist

Fjárfestingar fyrirtækjanna hafa aukist mikið á þessu ári samkvæmt könnun Gallup. 39% stjórnenda segja fjárfestingar hafa aukist á árinu en 14% að þær hafi minnkað miðað við árið 2015. Langmest aukning fjárfestinga er í byggingarstarfsemi og flutningum og ferðaþjónustu en aukning er í öllum atvinnugreinum, að undanskilinni fjármálastarfsemi.

„Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Einföld könnun með 7 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 19 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 23. ágúst til 20. september og voru spurningar 19. Í úrtaki var 431 fyrirtæki sem teljast stærst miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 246, þannig að svarhlutfall var 57%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði,“ segir að lokum í fréttinni.