Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Fréttablaðið að jákvæðar vísbendingar séu til þess að Ísland geti fljótlega tekið næstu skref til afnáms fjármagnshafta.

Seðlabankinn kynnti í vikunni niðurstöður úr gjaldeyrisútboði sem fram fór þann 15. júlí sl., þegar bankinn bauðst til að kaupa evrur fyrir íslenskar krónur. Munurinn á aflandsgengi og almennu gengi íslensku krónunnar er nú um helmingi minni en hann var í upphafi ársins. Gengi aflandskrónu gagnvart evru stendur nú í 180 krónum, en almennt gengi krónunnar gagnvart evru er 154 krónur.

Ásdís telur að aflandskrónueigendur séu ekki eins óþolinmóðir og þeir voru, en bendir á að útboðin nái einungis til erlendra fjárfesta. Núna sé orðið tímabært að hleypa einnig að innlendum aðilum. „Þetta er alltaf spurning um það þegar við losum um höftin hversu mikið útflæði verður og ég held að við fáum aldrei réttan mælikvarða á það nema við víkkum útboðin og fáum að vita hver þessi þrýstingur sem við óttumst verður.“