Poppins & Partners er fyrirtæki sem sérhæfir sig í ráðgjöf fyrir frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtæki. Fyrirtækið var stofnað í júní á síðasta ári og fagnar því ársafmæli sínu um þessar mundir. Stofnendur fyrirtækisins eru Hanna Kristín Skaftadóttir og Þórunn Jónsdóttir, en þær kynntust í námi við Háskólann í Reykjavík á sínum tíma.

„Við aðstoðum frumkvöðla við að brúa ákveðið bil og aðstoðum fólk við að sækja fjármögnun, umsóknir um styrki og uppsetningu á viðskiptaáætlun. Við veitum alhliða ráðgjöf fyrir nýsköpunarfyrirtæki sem eru á frum og milli stigum. Það bil sem við erum að reyna að brúa fyrir okkar viðskiptavini er þegar frumkvöðlar eru að byrja, þá vantar oft inn einhverja aðila, til dæmis hönnuð eða einhvern með fjármálavit, til að koma inn tímabundið. Þar komum við inn til að brúa þetta bil. Við komum með sérfræðiþekkinguna inn tímabundið þar til að búið er að ná í fjármögnun og þá geta frumkvöðlarnir ráðið inn fólk til að aðstoða sig“ segir Hanna Kristín Skaftadóttir, framkvæmdastjóri og önnur af stofnendum Poppins & Partners. Að hennar sögn sáu hún og Þórunn, sem báðar hafa rekið eigin frumkvöðlafyrirtæki, þörf á markaði fyrir þessa þjónustu og tóku því þá ákvörðun að stofa fyrirtækið. Þær tvær eru einu eiginlegu starfsmenn fyrirtækisins og öll önnur sérfræðiþjónusta er aðkeypt.

Meðal íslenskra fyrirtækja sem Poppins & Partners hafa þjónustað eru Gagarín, Gangverk og Calmus. „Stærsti hluti viðskiptavina okkar eru íslensk fyrirtæki, en við erum að sækja á Bandaríkjamarkað og Evrópu. Það eru alltaf að koma inn fleiri og fleiri erlend verkefni sem eru að sækja í þjónustuna og sækja um fjármögnun á Íslandi“ segir Hanna Kristín.

Stofnendur Poppins & Partners hafa í gegnum tíðina aðstoðað viðskiptavini sína við að afla styrkja fyrir hin ýmsu verkefni, fyrir samtals rúmar 346 milljónir króna. Styrkirnir koma til dæmis frá Tækniþróunarsjóði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .