Stéttarfélög starfsmanna álversins í Straumsvík hafa samþykkt að aðstoða Rio Tinto Alcan við að slökkva á álverinu eftir að verkfall starfsmanna hefst þann 2. desember. RÚV greinir frá þessu.

Lítill gangur hefur verið í kjaraviðræðum Rio Tinto Alcan á Íslandi við starfsmenn sína. Í byrjun þessa mánaðar var í annað skipti samþykkt að boða til verkfalls, og á það að hefjast 2. desember. Byrjað verður að slökkva á fyrstu kerjunum í álverinu strax þann 2. desember ef ekki næst að semja fyrir þann tíma. Starfsmenn munu aðstoða við að slökkva á álverinu í tvær vikur eftir að verkfallið hefst.

Aðstoð starfsmanna við að slökkva á kerjum er í samræmi við ákvæði í kjarasamningum, og er tilgangurinn að valda sem minnstu tjóni þegar slökkt er á álverinu. Kostnaðarsamt er að kveikja aftur á álveri eftir að slökkt hefur verið á kerjunum sem álið er brætt í.