Skiptastjóri þrotabús Stefáns H. Hilmarssonar, fyrrverandi fjármálastjóra og aðstoðarforstjóra Baugs Group og núverandi fjármálastjóri 365 miðla, fékk í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag rift veðsetningu á húsi hans við Laufásveg. Stefán var úrskurðaður gjaldþrota í júlí árið 2010. Fram kemur í dómsorði héraðsdóms að skömmu áður en Stefán var úrskurðaður gjaldþrota þá breytti hann rúmlega 30 milljóna króna yfirdráttarláni sem Byr hafði veitt honum í húsnæðislán og framseldi hann síðan húsið inn í einkahlutafélagið Vegvísi. Vegvísi seldi hann svo móður sinni.

Málið fyrir héraðsdómi í dag er eitt nokkurra sem snúa að því að losa um veð af húsi Stefáns við Laufásveg og grynnka á yfirveðsetningu þess. Þá er leitað eftir því að framsali einkahlutafélagsins verði rift þar sem þrotabúið telur lítið hafa komið inn í það við sölu húsins. Þrotabúið telur um málamyndagjörnin að ræða og vill fá húsið.

Skuldaði næstum 900 milljónir

Í málinu í dag kom fram að Stefán hafi verið í viðskiptum við Sparisjóð vélstjóra (síðar Byr) um árabil eða frá því hann hóf störf hjá Endurskooðun, sem síðar varð KPMG fyrir tæpum 30 árum. Á þeim tíma hafi verið stofnaður launareikningum hjá sparisjóðnum í hans nafni og fjármagnaði sparisjóðurinn fasteignakaup hans frá árinu 1989 og þar til hann keypti húsið við Laufásveg.

Þá vekur athygli í málinu að Stefán fékk háar fjárhæðir í yfirdráttarlán hjá Byr til persónulegra nota á sama tíma og hann starfaði hjá Baugi Group. Þau lágu í kringum 27 til 30 milljónum króna og endurfjármagnaði hann þau með nýjum lánum hjá Byr. Var svo komið að á árunum 2008 til 2009 mun hann hafa verið orðinn fjárhagslega háður lánafyrirgreiðslum sparisjóðsins. 7. júlí árið 2009 námu yfirdráttarlán hans 32,5 milljónum króna og voru þau með veðrétti í húsinu við Laufásveg. Síðar í sama mánuði var yfirdrátturinn svo greiddur upp.

Í málinu er bent á að samkvæmt skattframtalið Stefán fyrir árið 2009 vegna ársins á undan hafi skuldir hans verið tæpar 863,6 milljónir króna. Á sama tíma voru helstu eignir hans hlutabréf í hlutafélögum sem urðu ógjaldfær árið 2008 og gjaldþrota árið 2009. Af því sé ljóst að skuldir Stefán hafi verið langtum meiri en tekjur hans gátu staðið undir árið 2008. Hann hafi því að öllum líkindum verið ógjaldfær á sama tíma og Baugur Group - þ.e. um mitt ár 2008.

Dómsorð Héraðsdóms Reykjavíkur