Að meðaltali nemur ríkisaðstoð við fyrirtæki, sem gert hafa fjárfestingarsamning við ríkið frá árslokum 2013, um 5% af fjárfestingarkostnaðinum.

Sú ríkisaðstoð sem Matorka fær í formi afslátta af sköttum og opinberum gjöldum er metin á 426 milljónir króna. Miðað við að fjárfestingarkostnaðurinn sé 1.400 milljónir nemur ríkisaðstoðin 30% af fjárfestingarkostnaði verkefnisins.

Það verkefni sem kemst næst Matorku að þessu leyti er kísilmálmverksmiðja PCC á Bakka. Þar nemur ríkisaðstoðin 3,3 milljörðum króna en fjárfestingin hljóðar upp á 32 milljarða. Aðstoðin nemur því 10% af fjárfestingarkostnaðinum. Ríkisaðstoðin sem Algalíf fær nemur 6% af heildarfjárfestingunni, hjá Silicor Materials og United Silicon er þetta hlutfall 4% og hjá Thorsil 3%.

„Hvað varðar hlutfall Matorku þá er það meðal annars svona hátt vegna þess að launakostnaður er hlutfallslega mjög mikill hjá fyrirtækinu og þar af leiðandi vegur tryggingagjaldið þungt. Í þessum samanburði er mikilvægt að átta sig á því að skapalónið er eins hjá öllum fyrirtækjunum en reksturinn er ólíkur og þar af leiðandi geta ívilnanir verið breytilegar,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra í samtali við Viðskiptablaðið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .