*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 10. desember 2016 17:09

Aðþrengdir Aserta-menn

Viðskiptablaðið birtir hér bút úr umfjöllunni um Aserta-málið í bókinni Gjaldeyriseftirlitið – Vald án eftirlits? sem Almennabókafélagið gefur út. Höfundur er Björn Jón Bragason.

Ritstjórn
Axel Jón Fjeldsted

Í nóvemberbyrjun 2009 tóku í gildi reglur Seðlabankans um gjaldeyrisviðskipti sem bönnuðu krónuinnflutning til landsins. Þessar reglur stöðvuðu endanlega gjaldeyrisviðskipti eins og þau sem Aserta stundaði. Ingibjörg Guðbjartsdóttir, forstöðumaður Gjaldeyriseftirlitsins, hafði frumkvæði að því að setja nýju reglurnar. Raunar höfðu Asertamenn séð þróunina fyrir að nokkru leyti og þegar leið á haustið hafði dregið úr þeim mikla mun sem var á gengi krónu utan landsteinanna og hér heima. Tekjustreymið var því að þorna upp. Fyrsti hluti Aserta-ævintýrsins var á enda en annar rétt að byrja, eða það vonuðu fjórmenningarnir. Um haustið höfðu þeir fest kaup á lítilli verðbréfamiðlun, Aga verðbréfum hf., með verðbréfamiðlunarleyfi. Framtíðarfyrirætlanir þeirra lágu á þeim vettvangi.

Þeir voru hins vegar grandalausir um þá staðreynd að fyrrum samstarfskona þeirra og ráðgjafi, Ingibjörg Guðbjartsdóttir, hafði þetta sumar og haust hafist handa við að safna gögnum í sakamál á hendur þeim. Karl Löve Jóhannsson komst svo að orði: „Við töldum að sú staðreynd að Ingibjörg hefði ekki gert neina athugasemd við okkur eftir að hún fór að vinna hjá Seðlabankanum þýddi að hún hefði ekkert við starfsemi okkar að athuga. Þau litlu samskipti sem við áttum við hana eftir að hún fór að vinna þar studdi eindregið þessa skoðun okkar. “

Blaðamannafundur boðaður

Á sama tíma og þrír af fjórum Asertamönnum voru komnir bak við lás og slá og yfirheyrslur undirbúnar í húsakynnum ríkislögreglustjóra við Skúlagötu flykktust fjölmiðlamenn á annan stað í húsinu. Þar hafði með skömmum fyrirvara verið boðað til blaðamannafundar klukkan 15. Efni fundarins hafði þó verið lekið út því að Þórður Snær Júlíusson, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, birti frétt á vef blaðsins klukkan 14:01 undir fyrirsögninni „Grunaðir um að víxla þrettán milljörðum framhjá gjaldeyrishöftum – Félag í eigu fyrrum starfsmanna Straums til rannsóknar. Viðurlög allt að tveggja ára fangelsi.“ Virtist hann vel að sér í málinu.

Eftirvæntingu mátti lesa út úr andlitum fréttamannanna sem mættu á blaðamannafundinn. Nú var loksins eitthvað að gerast. Helgi Magnús Gunnarsson, forstöðumaður efnahagsbrotadeildarinnar, stillti sér upp við borð frammi fyrir linsum ljósmyndara og sjónvarpstökumanna, Ingibjörg Guðbjartsdóttir sat honum á hægri hönd og Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, á vinstri hönd. Már Guðmundsson hafði afþakkað að mæta sökum anna auk þess sem hann taldi sig ekki þekkja málið nægilega vel. Á dökku borðinu hafði verið stillt upp fjölda hljóðnema. Blaðamennirnir drógu fram skrifblokkirnar. Mikil tíðindi hlytu að vera í aðsigi. Fundurinn hófst með þessum orðum Helga Magnúsar:

„Tilefni þessa fundar hér í dag er að kynna ykkur sameiginlegt verkefni efnahagsbrotadeildarinnar, Seðlabankans og FME í tengslum við brot gegn gjaldeyrishöftum og gjaldeyrislögum um gjaldeyrisviðskipti sem voru til rannsóknar. Í dag hófum við rannsókn á einu slíku máli sem ég ætla aðeins að segja ykkur frá.“

Því næst kvaðst Helgi Magnús vera mjög spenntur fyrir samstarfinu með embættum þeirra Gunnars og Ingibjargar. Hann sagði ríkislögreglustjóra hafa rökstuddan grun um að sænska félagið Aserta AB hafi tekið á móti erlendum gjaldeyri frá yfir hundrað einstaklingum og fyrirtækjum, samtals 13 milljörðum króna. Félagið hefði síðan skipt gjaldeyrinum í útlöndum yfir í íslenskar krónur sem voru lagðar inn á reikninga hér á landi. Krónan hafði verið skráð mun veikari erlendis en hjá Seðlabanka Íslands og þannig hafi Aserta og viðskiptavinir þess hagnast á gengismuninum. Þetta hefði verið gert þótt Aserta væri „án tilskilinna lögboðinna leyfa Seðlabankans“.

Þótt ekki hefði legið fyrir hvernig ávinningurinn hefði skipst milli Aserta og viðskiptavinanna sagði Helgi Magnús síðan: „Menn geta leikið sér að því að reyna að reikna svona 15–40% af 13 milljörðum og þá fá þeir út svona sæmilega háa tölu, hvað er það eitthvað um fjórir milljarðar kannski?“

Helgi Magnús gat þess jafnframt að líklegt væri að viðskiptin hefðu haft neikvæð áhrif á tilraunir stjórnvalda og Seðlabankans til þess að vinna gegn veikingu krónunnar. Hann bætti því við að til skoðunar kæmi í tengslum við þetta „hugsanlegt peningaþvætti, skattalagabrot og fleira og ekki hvað síst hugsanleg skilaskyldubrot þeirra sem áttu viðskipti við þetta félag“. Þar sem Helgi Magnús taldi viðskiptin ólögmæt krafðist hann upptöku ávinnings og þess vegna hefðu allar eigur sakborninga verið kyrrsettar.

Ingibjörg Guðbjartsdóttir upplýsti blaðamenn um að Asertamálið væri eitt 26 mála sem Gjaldeyriseftirlitið hefði tilkynnt til Fjármálaeftirlitsins og þar af eitt af sjö sem kærð hefðu verið til lögreglu. Þá fór hún yfir umræddar fjárhæðir og setti þær í samhengi við heildarveltu á gjaldeyrismarkaði, en þá átta mánuði sem Aserta starfaði var félagið með um 13% af heildarveltunni.

Ingibjörg var ekki í neinum vafa um að háttsemi Asertamanna fæli í sér brot: „Þeir eru að brjóta af sér já bæði náttúrlega með því að nýta sér milligöngumann til að kaupa krónur á aflandsmarkaði“ og bætti við: „Hins vegar eru þeir náttúrlega fyrst og fremst að brjóta á skilaskyldunni. Þá er um að ræða annaðhvort tekjur eða annan erlendan ávinning sem að ber að skila heim í erlendum gjaldeyri en ekki í íslenskum krónum.“ Helgi Magnús saksóknari, sem hafði átt hugmyndina að því að boða til blaðamannafundarins, tók síðan aftur til máls: „Nú verð ég að taka fram að ég er að lýsa rannsóknarefni þessa máls, rannsókn er nýhafin og það eru sterkar grunsemdir að brotin séu með þessum hætti.“

Þá var röðin komin að Gunnari Þ. Andersen, forstjóra Fjár- málaeftirlitsins, sem lét þess getið að kannski væri „ekki alveg hefðbundið“ að halda blaðamannafund í upphafi rannsóknar en ákveðinn tilgangur lægi þar að baki. Hann sagði:

„Ástæðan fyrir því að við gerum þetta er í og með sú að við viljum koma á framfæri ákveðnum skilaboðum um það að það sé verið að taka á þessum málum. Ég vil koma á framfæri skilaboðum um þetta sé litið alvarlegum augum og fá fólk til þess að hugsa sinn gang og í von um að það verði þá kannski til þess að fæla einhverja frá því að stunda þessi brot.“

Samkvæmt þessu hafði handtaka þeirra Asertamanna tvíþættan tilgang. Annars vegar væri hún hluti af rannsókn meints glæps og hins vegar hugsuð öðrum til viðvörunar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði lagt upp með að nauðsynlegt væri að „auglýsa“ vel þau mál sem væru til rannsóknar vegna brota á gjaldeyrislöggjöfinni. Taldi sjóðurinn það hafa ótvíræð varnaðaráhrif að kynna fyrir almenningi rannsóknir á meintum brotum.

Þegar Karl Löve Jóhannsson frétti síðar um daginn af blaðamannafundinum nagaði hann sig í handarbökin yfir að hafa ekki bent strax í húsleitinni á tengsl Ingibjargar við málið. Hann segir svo frá:

„Ég lét mér ekki til hugar koma að það yrði boðað til blaðamannafundar vegna þessa máls áður en skýrslutaka hafði farið fram og hvað þá að þar myndi Ingibjörg lýsa sakarefninu ásamt saksóknara efnahagsbrota og forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Ég er viss um að þessir tveir herramenn hefðu aldrei látið sér detta í hug að sitja við hlið Ingibjargar á slíkum fundi hefði þeim verið ljós tenging hennar við málið. Ég er þess raunar fullviss að þá hefði fundurinn yfirhöfuð aldrei verið haldinn. Ef ég hefði sagt frá þessum tengslum strax í húsleitinni á skrifstofunni hefði málið sennilega aldrei farið af stað að neinu marki.“ Undir þetta tekur Markús Máni Michaelsson. Í yfirheyrslunum greindi hann lögregluþjónunum frá nánum tengslum kærandans, Ingibjargar Guðbjartsdóttur, við þá fjórmenninga. „Það sem kom mest á óvart var að rannsakendur komu algjörlega af fjöllum þegar ég greindi þeim frá tengslum mínum við Ingibjörgu. ... Hún hafði augljóslega ekki gert þeim grein fyrir þessum tengslum.“

Handtökurnar og blaðamannafundurinn voru helsta frétt þessa annars kyrrláta föstudags og næstu daga, en hér voru lögregluyfirvöld í fyrsta skipti eftir hrunið að láta til skarar skríða gegn fjármálamönnum — og þótti mörgum tími til kominn. Aðgerðunum var því víða fagnað. Ekki leið á löngu þar til Asertamenn voru nafngreindir í fjölmiðlum. Ýmsir fréttamenn, þeirra á meðal Kristín Sigurðardóttir á fréttastofu Ríkisútvarpsins, sögðu fréttir í beinni útsendingu frá húsnæði ríkislögreglustjóra við Skúlagötu þennan eftirmiðdag. Kristín lauk einni frétt sinni á eftirfarandi orðum: „Það voru 30 starfsmenn embættanna þriggja sem tóku þátt í húsleitum á heimilum fjórmenninganna og í einu fyrirtæki. Og þrír mannanna eru núna í yfirheyrslu. En við látum þessu lokið héðan í bili frá embætti ríkislögreglustjóra.“

Stikkorð: Bækur Aserta Gjaldeyriseftirlit